Tíu forvitnilegar myndir á RIFF

Úr ítölsku heimildamyndinni Fire at Sea, einni athyglisverðustu mynd ársins.
Úr ítölsku heimildamyndinni Fire at Sea, einni athyglisverðustu mynd ársins.

RIFF hefst á morgun og sýnir um 70 kvikmyndir á 11 dögum auk ýmiskonar sérviðburða. Ég tíndi út tíu myndir (eða myndaraðir) sem mér þykja forvitnilegar – en endilega farið vel yfir úrvalið.

Hægt er að skoða allar myndir og viðburði hér.

Smellið á heiti mynda til að fá frekari upplýsingar um sýningartíma og miðakaup.

Glæpasaga á vestfjörðum | Iceland crime – Mystery of Westfjord

Þýsk sjónvarpsmynd með Franka Potente (Run Lola, Run) í aðalhlutverki, einnig koma íslenskir leikarar við sögu. Sólveig Karlsdottir er glæpasagnahöfundur frá Reykjavík. Þrátt fyrir að á Íslandi séu aðeins framin tvö morð á ári og því erfitt að sækja innblástur til heimalandsins er Sólveig vinsæl. Hún hefur öflugt ímyndunarafl og er sérlega næm á það þegar eitthvað er ekki eins og það virðist vera. Þegar hún ekur á heimahagana til að sjá um Margréti móður sína sem hrjáist af elliglöpum, þá finnur hún eitthvað á sér. Skólabróðir hennar fannst látinn við höfnina, atburðurinn er álitinn slys en Sólveig er ósátt við þá skýringu. Fjölskyldudrama, svik, fjárhagsörðugleikar og brostnar vonir eru dregnar fram í dagsljósið.

Dýrafræði | Zoology

Natasha er miðaldra starfsmaður í dýragarði. Hún býr enn heima hjá mömmu sinni í smábæ. Hún berst fyrir sjálfstæði en þarf að þola óvenjulegt líf og slúður. Hún er föst í sama fari þar til dag einn.. þá vex á hana hali. Í fyrstu skammast hún sín en ákveður svo að nýta þessa breytingu sem tækifæri til að enduskilgreina sjálfa sig sem manneskju og sem konu. Hún fær aðgang að lífi sem hún þekkti ekki áður, hún byrjar í sambandi með karlmanni sem finnst hún vera aðlaðandi, hún fer út og leyfir sér að gera sig að fífli svona einu sinni. En svo lýkur þessu seinna kynþroskaskeiði og Natasha þarf að velja á milli raunveruleikans og tálsýnar. Myndin hlaut verðlaun á Karlovy Vary.

Birtingarmynd ofbeldis | Anatomy of Violence

Í desember árið 2012 fór 23 ára gömul kona inn í strætó í Delhi ásamt vini sínum. Mennirnir sem voru í vagninum, fimm farþegar og vagnstjórinn nauðguðu allir konunni, lömdu vin hennar og hentu þeim út á götu. Konan dó af sárum sínum tveimur vikum síðar. í þessari nýju mynd, fullri af tilfinningaþrunginni reiði, rannsakar hinn virti kvikmyndaleikstjóri Deepa Mehta einn alræmdasta glæp sem framinn hefur verið á Indlandi. Myndin blandar saman staðreyndum og skáldskap. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í september.

Deepa Mehta er einn heiðursgesta RIFF í ár og mun sitja fyrir svörum eftir sýningu auk þess að halda masterklass. Hér að neðan ræðir hún myndina í Toronto.

Brennuvargurinn | Pyromaniac

Hlakka til að sjá þessa mynd skólafélaga míns Erik Skjoldbjærg. Íkveikjuóður maður hefur brennuferil sinn í rólegu þorpi. Á næstu vikum fylgir röð af íkveikjum sem veldur ótta í þessu litla samfélagi.  Undir yfirborðinu kraumar óhugsandi leyndarmál, lögreglumaður á staðnum áttar sig á að brennuvargurinn er slökkviliðsmaður í bænum og sonur slökkviliðsstjórans. Við kynnumst brennuvarginum og slökkviliðsmanninum vel þegar myndin rannsakar hvernig brennuvargurinn og slökkviliðsmaðurinn berjast um að stjórna huga unga mannsins.

Bandaríki ástarinnar | United States of Love

Sjá viðtal Ásgeirs H. Ingólfssonar við leikstjóra myndarinnar hér.

Árið er 1990 í Póllandi. Fall Sovétblokkarinnar er upphaf langþráðs frelsis en einnig óvissu. Fjórar óhamingjusamar konur vilja breyta lífi sínu og berjast fyrir lífshamingju. Agata er ung móðir í óhamingjusömu hjónabandi, hún leitar huggunar í óendurgoldinni ást til prests. Renata, eldri kennari, er heilluð af nágrannakonu sinni Marzenu, einmana fyrrum fegurðardrottningu sem á eiginmann í Þýskalandi. Iza systir Marzenu er skólastjóri sem er ástfangin af föður nemanda síns. Allir eru að leita að ástinni í köldu og hráslagalegu landslagi í persónuleikalausum bæ fullum af sálarlausum blokkum. En á sama tíma er leyfilegt að njósna um annað fólk. Myndin hlaut verðlaun fyrir besta handritið á kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Ljóð án enda | Endless Poetry

Ljóð án enda kemur í framhaldi af Dansi raunveruleikans (2013) sem einnig er sýnd á RIFF, en báðar heyra til fimm mynda seríu Alejandro Jodorowsky með kvikmyndaendurminningum. Gegnum sjálfsævisögulega linsu sína rekur myndin barnæsku hins síleska listamanns þegar hann frelsaði sig frá öllum hömlum sínum, frá fjölskyldu sinni, og kynntist innsta hring bóhema í Síle á fimmta áratugnum – fólki sem síðar átti eftir að verða forkólfar 20. aldar bókmennta í Rómönsku-Ameríku. Hann hreifst af fegurð tilverunnar þessum félagsskap, kannandi lífið í sameiningu, trúverðugt og frjálst. Notast er við ”síkómagískan” stíl, fyndinn og alvarlegan í senn. Myndin var sýnd á Directors’ Fortnight í Cannes.

Eldur á sjó | Fire at Sea

Eyjan Lampedusa hefur undanfarið komið í heimsfréttunum sem fyrsti áfangastaður hundruða þúsunda flóttamanna frá Afríku og Miðausturlöndum í von um nýtt líf í Evrópu. Ítalski leikstjórinn Gianfranco Rosi eyddi mörgum mánuðum á eyjunni og skrásetti sögu hennar, menningu og daglegt líf hinna 6.000 íbúa þar, sem sjá hundruðir flóttamanna nema land þar í hverri viku. Myndin hverfist um líf hins 12 ára gamla Samúels sem er búsettur á eyjunni. Meðal verðlauna sem myndin hefur hlotið eru Gullbjörninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín 2016 og Silfurborða Samtaka ítalskra kvikmyndablaðamanna 2016.

Mjúk leðja | Mellow Mud

Arnar Þórisson tökumaður er tilnefndur til Lettnesku kvikmyndaverðlaunanna fyrir þessa mynd, sem einnig hlaut verðlaun á síðustu Berlínarhátíð. Einmanaleiki, vonbrigði og fyrstu kynni af ástinni einkennir líf hinnar 17 ára Raya, sem býr í húsi fjölskyldunnar í sveit í Lettlandi ásamt ömmu sinni og litla bróður. Systkinin voru yfirgefin af móður þeirra og skilin eftir ein á ættarbýlinu við dauða föður þeirra. Líf þeirra tekur stakkaskiptum þegar óvænt atburðarás fer af stað, ráðrík amma þeirra deyr skyndilega. Unglingarnir standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun, annaðhvort að tilkynna andlát ömmu sinnar og gefa sig fram til yfirvalda eða fela líkið og láta sem ekkert hafi í skorist.

Boðorðin | Dekalog

Boðorðin (Dekalog) er röð tíu tæplega klukkustundar langra mynda sem voru framleiddar fyrir pólska ríkissjónvarpið og leikstýrt af Krzysztof Kieślowski – einhver merkasti bálkur kvikmynda sem gerður hefur verið. Ef þú hefur ekki tíma til að sjá allan bálkinn er þér alveg óhætt að velja hverja þeirra sem er, þær eru allar frábærar. Tvær myndanna Dekalog fimm og sex eru styttri útgáfur af myndum í fullri lengd A Short Film About Killing og A Short Film About Love. Myndirnar takast á við tilfinningalega vanlíðan fólks þegar eðlishvatir og siðgæði samfélagsins stangast á.

Myndirnar tíu eru sýndar laugardag og sunnudag sem hér segir:

Dekalog 1: Lau 1.okt., kl. 13:30, Bíó Paradís
Dekalog 2: Lau 1. okt., kl. 14:45, Bíó Paradís
Dekalog 3: Lau 1. okt., kl. 15:55, Bíó Paradís
Dekalog 4: Lau 1. okt., kl. 17:50, Bíó Paradís
Dekalog 5: Sun 2. okt., kl. 13:30, Bíó Paradís
Dekalog 6: Sun 2. okt., kl. 14:50, Bíó Paradís
Dekalog 7: Sun 2. okt., kl. 16:00, Bíó Paradís
Dekalog 8: Sun 2. okt., kl. 17:05, Bíó Paradís
Dekalog 9: Sun 2. okt., kl. 18:10, Bíó Paradís
Dekalog 10: Sun 2. okt., kl. 19:20, Bíó Paradís

Baskavígin | Slaying of the Basques

Spænsk/íslensk heimildamynd um drápin á baskneskum hvalveiðimönnum á Vestfjörðum 1615. Í júní 1615 beið íslenski fræðimaðurinn Jón lærði Guðmundsson, enn eitt árið eftir komu baskneskra vina sinna að ströndum Íslands. Vinir Jóns, 86 baskneskir hvalveiðimenn, urðu fórnarlömb í einu stærsta fjöldamorði Íslandsögunnar. Fjögur hunduð árum eftir þennan atburð er tímabært að draga þessa sögu fram í dagsljósið. Og sögumaðurinn er Jón lærði, maðurinn sem fordæmdi grimmdarverkin. Það varð Jóni dýrt, hann og var ákærður og útlægur til dauðadags.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR