„Þrestir“ tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd

Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.

Þrestir Rúnars Rúnarssonar hefur verið tilnefnd fyrir Íslands hönd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Verðlaunin verða afhent í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. um myndina:

Leikstjórinn Rúnar Rúnarsson hefur þróað áberandi persónulegan stíl sem byggir á hárfínum athugunum á hefðbundinni íslenskri menningu og fagurfræði og samspili þessara þátta við nútímahugsunarhátt, en þetta er oftar en ekki sett fram samhliða þeim flækjum sem vöxtur og þroski hafa í för með sér. Í Þröstum eru þessi stef undirstrikuð af því sálarstríði sem hlýst af því að hin gamla og nýja tilvera Ara mætast, svo og hefðbundnum gildum sem líða undir lok og þeim erfiðu málamiðlunum sem fylgja því að fullorðnast.

Þetta er í þrettánda sinn sem Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt. Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna (tæpum 6,2 milljónum íslenskra króna), sem skiptast á milli leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda sigurmyndarinnar.

Tilkynnt verður um handhafa hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs og verðlaunin afhent í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember.

Skemmst er að minnast þess að Fúsi Dags Kára hlaut þessi verðlaun í fyrra og Hross í oss Benedikts Erlingssonar árið áður.

Sjá nánar hér: Tilnefningar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2016

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR