Jóhann Jóhannsson í kjölfar Vangelis

Jóhann Jóhannsson til hægri, rammi úr Blade Runner í bakgrunni. (Samsett mynd: RÚV)
Jóhann Jóhannsson til hægri, rammi úr Blade Runner í bakgrunni. (Samsett mynd: RÚV)

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson mun semja tónlist við sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Blade Runner. Þetta verður í fjórða sinn sem hann vinnur með leikstjóranum Denis Villeneuve.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að þetta yrði niðurstaðan en nú er það staðfest.

RÚV greinir frá:

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson mun semja tónlist við sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Blade Runner. „Það er eins og það sé verið að fela manni mjög mikilvægt verkefni sem ekki má klúðra,“ segir Jóhann. „Þetta er sannarlega heiður og rosalega gaman að fá að vera með í þessu ævintýri.“

Þetta kemur fram í viðtali við Jóhann í útvarpsþættinum Lestin, sem nýlega hóf göngu sína á Rás 1.

Leikstjóri myndarinnar er Denis Villeneuve, sem leikstýrði bæði Sicario og Prisoners, en Jóhann samdi einnig tónlistina við þær myndir. Ryan Gosling fer með aðalhlutverk í myndinni og Harrison Ford mun snúa þar aftur í hlutverki Rick Deckard. Á dögunum fréttist einnig af því að Jared Leto muni fara með hlutverk í henni.

Tónlistin verði hluti af DNA myndarinnar

Aðkoma Jóhanns að myndinni hefur átt sér langan aðdraganda. „Við byrjuðum að ræða þetta fyrir einu og hálfu ári síðan, áður en [Denis Villeneuve] byrjaði á Arrival, sem er myndin sem er að koma út í nóvember,“ segir Jóhann. „Þetta hefur verið í gerjun mjög lengi.“ Tökur við myndina hófust fyrr í sumar og Jóhann byrjaði að semja tónlistina um leið.

Jóhann greinir í viðtalinu frá því að vinna hans við myndir Villeneuve hefjist yfirleitt á grunnstigum framleiðslunnar. „Oft byrja ég um leið og hann byrjar að taka, jafnvel á undan og sendi honum grunnhugmyndir, stemningu og atmósfer. Ég veit ekki hvernig þetta fer með þetta prójekt en í Arrival, varð eitt grunnþemað til mjög snemma, í raun áður en hann byrjaði að taka myndina. Þannig að hann var með það í eyrunum allan tímann meðan hann var að skjóta. Þannig á tónlistin auðveldar með að verða partur af DNA myndarinnar.“

Spennandi áskorun

Jóhann segist hafa orðið mjög spenntur þegar hann heyrði af því að ráðast ætti í gerð myndarinnar. Blade Runner hafi verið veigamikill þáttur í kvikmyndalegu uppeldi hans, hann sé mikill Philip K. Dick aðdáandi og Vangelis, sem gerði tónlist myndarinnar, hafi verið áhrifavaldur á ákveðnum tíma í ferli hans. Hann segir það vera spennandi áskorun að vinna sjálfstætt verk úr þessum efnivið.

„Þetta er ekki endurgerð,“ undirstrikar Jóhann. „Þetta er framhald. Ég held að allir séu að stefna að því að gera eitthvað sem að stendur eitt og sér sem sjálfstætt verk, sem lifir samt í sama heimi og upprunalega myndin.“

Sjá hér: Jóhann Jóhannsson semur tónlist Blade Runner 2

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR