Tveir franskir sjóðir styrkja nýja mynd Benedikts Erlingssonar

Benedikt Erlingsson þakkar fyrir Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014.
Benedikt Erlingsson.

Í dag var tilkynnt að Fondation gan pour le cinéma, frönsk stofnun sem styrkir listrænar kvikmyndir, hefði ákveðið að styðja nýtt verkefni Benedikts Erlingssonar, Fjallkona fer í stríð (A Woman at War). Fyrir skemmstu var opinberað að CNC, kvikmyndasjóður Frakklands, hefði veitt fé til myndarinnar úr sérstökum sjóði til styrktar alþjóðlegri kvikmyndagerð.

Í hvorugu tilvikinu er gefið upp um hversu háar upphæðir er að ræða.

Söguþræði er svo lýst: Ógift kona um fimmtugt lýsir yfir stríði gegn stóriðju í landinu. Hún einsetur sér að vinna skemmdarverk og er tilbúin að hætta öllu til að bjarga óspilltri náttúrunni… þar til búlgarskur munaðarleysingi kemur til sögu.

Framleiðandi myndarinnar ásamt Benedikt er Marianne Slot hjá Slot Machine í París, en hún hefur meðal annars unnið mikið með Lars von Trier. Áætlað er að filma frá næsta vori á Íslandi og í Búlgaríu.

Í spjalli við Morgunblaðið á dögunum skýrði Benedikt frá því að Kvikmyndamiðstöð Íslands hefði hafnað styrkumsókn hans vegna verksins:

Hross í Oss er hans stærsta kvikmyndaverkefni hingað til. »Hún fékk heldur betur vængi. Ég er í framhaldi af því að undirbúa mína næstu mynd sem ég kalla Fjallkona fer í stríð. Handritið er eftir mig og Ólaf Egil Ólafsson. Fjármögnun gengur mjög vel erlendis en öllum að óvörum kom smá babb í íslenska bátinn. Við fengum fyrst já frá ráðgjafa sjóðsins enda virðast menn vera nokkuð ánægðir með handritið bæði hér og erlendis en síðan fengum við nei frá kvikmyndasjóðnum sjálfum. Sem þýðir að myndin verður ekki tekin upp fyrr en sumarið 2017. Þetta voru auðvitað vonbrigði en það er ekkert réttlæti í listum. Það sem er ánægjulegt er hvað ég virðist vera heit kartafla í útlöndum. Ég er kominn með tvo stóra styrki í Frakklandi, auk media þróunar styrks. Svo er búið að selja dreifingarréttinn fyrirfram en þetta verður auðvitað dýr mynd. Við erum að tala um »action« mynd,« segir Benedikt. »Ég mun líklega geta gert myndina með eða án kvikmyndasjóðs en ekki fyrr en næsta sumar. Vonandi með. Því auðvitað vil ég að mitt fólk sé með og að við getum verið stolt af þessu saman.«

 

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR