Truenorth hafnar gagnrýni vegna „Fast 8“, FK biðst afsökunar

Frá tökum á Fast 8. (Mynd: Finnur Andrésson)

Truenorth, sem þjónustaði kvikmyndina Fast 8 við Mývatn og á Akranesi, hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við umsögn Félags kvikmyndagerðarmanna, FK. Fyrirtækið telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við og leiðrétta rangfærslur sem birtust í umsögninni.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig að FK hafi beðist afsökunar á því að hafa sent ranga umsögn til atvinnuveganefndar. Rétt umsögn hefur verið send inn og er hægt að nálgast hana hér.

Í upphaflegu bréfi FK var framkvæmd upptöku Fast 8 við Mývatn gagnrýnd. Ennfremur var lagt til að innlendir/evrópskir starfsmenn verkefna sem nytu endurgreiðslu væru að minnsta kosti 30% starfsliðs.

Í svarbréfi True North, sem lesa má hér, segir meðal annars að við undirbúning á tökum á Fast 8 hafi mikið verið lagt í forvinnu í nánu samstarfi við fagaðila og reynslu heimamanna varðandi öryggi íssins. Í þeim tilvikum sem ís hafi brotnað undan vinnuvélum hafi strax farið í gang viðbragðsáætlun sem kom í veg fyrir mengun. Það hafi síðar verið staðfest með rannsókn Umhverfisstofnunar.

Truenorth segir að umhverfismálin hafi verið leyfisskyld og undir eftirliti fjölmargra eftirlitsaðila. „Jafnframt voru unnar viðbragðsáætlanir til að tökuliðið væri viðbúið hverskyns óhöppum og voru þær samþykktar af Umhverfisstofnun.“ Truenorth bendir jafnframt á að engar tökur hafi farið fram á Langavatni eins og til stóð og haldið hafi verið fram í umsögn FK.

Truenorth upplýsir jafnframt að strangar reglur hafi verið í gildi fyrir þá sem unnu úti á vatninu. „Þegar komið var fram í apríl og lofthiti jókst var hert enn frekar á þeim reglum í samstarfi við Umhverfisstofnun til að gæta enn betur að öryggi allra.“ Þá hafi sérstakt öryggisteymi metið og haldið utan um öryggi allra á tökustað.

Þá er einnig vikið að athugasemdum FK varðandi lágmarkshlutfall EES ríkisborgara í tökuliði:

Truenorth bendir á að nú þegar er ákvæði í lögum um tímabundnar endurgreiðslur sem kveður á um að 51% tökuliðs séu ríkisborgarar EES ríkja og hefur Truenorth fylgt því í ölium verkefnum sem hljóta endurgreiðslu. Jafnframt hafa íslendingar verið að fá veigameiri stöður í erlendum verkefnum með aukinni reynslu, og fjölgar þeim með hverju verkefni sem ratar til Íslands.

Þá hefur True North sömuleiðis ýmislegt að athuga við athugasemd FK varðandi vinnutíma og aðbúnað:

Truenorth virðir íslenskar og evrópskar reglur um vinnutíma, laun, aðbúnað og hollustuhætti og vísar alfarið á bug ásökunum að starfsfólk sé látið skrifa undir samninga sem innihalda ólögleg ákvæði um vinnutíma.

Sjá nánar hér: Truenorth vísar gagnrýni vegna Fast 8 á bug | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR