Spænsk íslensk heimildamynd um Baskavígin 1615 í vinnslu

Hluti leikarahóps myndarinnar við tökur á Spáni.
Hluti leikarahóps myndarinnar við tökur á Spáni.

Baskneska kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Old Port Films vinnur nú að gerð heimildamyndar um Baskavígin svokölluðu árið 1615 (sem Íslendingar nefna Spánverjavígin). Kvikmyndagerðin Seylan er meðframleiðandi verksins, sem er stórt í sniðum.

Árið 2015 voru liðin 400 ár frá Baskavígunum, einu fjöldamorðunum sem Íslendingar hafa framið. Af því tilefni voru haldnar ráðstefnur hér á landi og erlendis þar sem fræðimenn rannsökuðu og ræddu þessa atburði. Heimildamyndin kemur í kjölfar þessa og er kvikmynduð bæði á Spáni og á Íslandi.

Hér er um að ræða viðamikla framleiðslu, 90 mínútna (einnig 60 mínútna útgáfa) heimildamynd með mörgum leiknum atriðum ásamt viðtölum við sérfræðinga af ýmsu þjóðerni, þ.á.m. íslenskum. Hilmar Örn Hilmarsson mun semja tónlist verksins og öll hljóðvinnsla fer fram á Íslandi.

Myndin lýsir örlögum basknesku sjómannanna sem lentu í hrakningum við Íslandsstrendur og voru að lokum myrtir af mikilli grimmd að undirlagi Ara í Ögri árið 1615.

Í myndinni eru mörg sviðsett atriði sem eru tekin upp á sögustöðum á Vestfjörðum auk atriða sem eru tekin í öðrum landshlutum þar sem til staðar er umhverfi sem rímar við þann tíma sem Baskavígin áttu sér stað. Hluti myndarinnar er tekinn á Spáni og um borð í eftirlíkingu hvalveiðiskipa frá 17. öld.

Til landsins koma 20 Spánverjar, bæði leikarar og tökulið. Íslenskir starfsmenn verða rúmlega 120 talsins, tæknimenn, leikarar, aukaleikarar og aðstoðarmenn. Tökudagar hér á landi eru fjórtán og lýkur tökum 8. maí.

KMÍ styrkir verkið og RÚV kaupir sýningarrétt og leggur til leikmuni og búninga.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR