„Verstöðin Ísland“ endurunnin og gefin út á ný

Rammi úr Verstöðinni Ísland.
Rammi úr Verstöðinni Ísland.

Heimildamyndabálkurinn Verstöðin Ísland, sem upphaflega kom út í fjórum hlutum 1992, verður endurunnin í stafrænu formi og gefin út á ný innan skamms. Myndaflokkurinn, sem gerður var af Erlendi Sveinssyni, Sigurði Sverri Pálssyni og Þórarni Guðnasyni, hefur ekki verið fáanlegur um árabil en nú er um aldarfjórðungur frá því að verkið var frumsýnt í Háskólabíói.

Verstöðin Ísland var á sínum tíma langviðamesta og kostnaðarsamasta heimildarmyndin sem ráðist hafði verið í að gera á Íslandi og hefur haldið þeirri stöðu allt til dagsins í dag.

Fyrsti hluti verksins nefnist Frá árum til véla og lýsir tímabilinu frá árabátatíma fyrri alda og fram til 1918, þegar Ísland fékk fullveldi.

Annar hlutinn fjallar um tímabilið milli 1920 og 1950 í sjávarútvegssögu okkar og nefndist: Bygging nýs Íslands.

Þriðji hlutinn, Baráttan um fiskinn, tekur upp þráðinn um 1950 og lýsir þróuninni fram að framleiðslutíma myndarinnar undir 1990.

Fjórði hlutinn er hins vegar um útgerðarhætti á framleiðslutíma myndarinnar og nefnist: Ár í útgerð.

Í fréttatilkynningu frá aðstandendum segir meðal annars:

Nú hefur frumfilman verið sendi til háskerpuskönnunar í Kaupmannahöfn og síðan mun kvikmyndatökumaður verksins, Sigurður Sverrir Pálsson, endurlitgreina myndina og ganga frá henni þannig að hún njóti sín í nútíma sjónvarpstækjum. Hljóðið verður líka tekið til stafrænnar meðferðar. Umsjón með endurgerðinni hefur Erlendur Sveinsson sem einnig skrifaði handrit myndaflokksins á sínum tíma, stjórnaði gerð hans, tók upp hljóð ásamt Þórarni Guðnasyni og klippti sögulegu myndirnar þrjár, Sigurður Sverrir klippti 4. hlutann. Erlendur mun ennfremur sjá um diskaútlitið, kaflaskiptingar, vinna náið með þýðanda og annast ritun framleiðslusögunnar til útgáfu á netinu. Kostnaðaráætlun þessa verkefnis hljóðar upp á rúmar 15 milljónir. Þar af skipta Erlendur og Sigurður Sverrir 51% kostnaðarins á milli sín. 49% eða 7,5 milljónir króna koma í hlut fjögurra styrktaraðila.

Guðrún Lárusdóttir útgerðarmaður og maður hennar Ágúst Sigurðsson, eigendur Stálskipa í Hafnarfirði, styrktu verkefnið um tvær milljónir króna. Guðbjörg M. Matthíasdóttir, útgerðar- og athafnakona í Vestmannaeyjum, styrkti einnig verkefnið um sömu upphæð. HB Grandi veitti styrk uppá 900.000 krónur og Félag síldarútgerða/Rannsóknasjóður síldarútvegsins veitti til verksins 2,6 milljónum króna.

Stefnt er það því að ljúka verkefninu á einu ári og sýna árangurinn á stóru tjaldi í kvikmyndahúsi í tengslum við næsta aðalfund SFS. Í framhaldinu verður flokkurinn síðan gefinn út á diskum og á netsvæði SFS.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR