„The Diary of a Teenage Girl“ opnunarmynd Stockfish hátíðarinnar

The-Diary-Of-A-Teenage-GirlStockfish hátíðin fer fram í annað sinn í Bíó Paradís dagana 18.-28. febrúar næstkomandi. Opnunarmynd hátíðarinnar er The Diary of a Teenage Girl og teiknarinn Sara Gunnarsdóttir sem gerði teikningar í myndinni verður gestur hátíðarinnar.

Mynd­in ger­ist í San Francisco á átt­unda ára­tugn­um og seg­ir frá hinni 15 ára Minnie Goetz sem er upptekin af kynlífi og verður heltekin af kærasta móður sinnar eftir að hún sefur hjá honum. Minnie hefur áhuga á að vera teikn­ari og er Sara í stóru hlut­verki í mynd­inni því teikn­ing­ar henn­ar birt­ast mikið á skján­um sam­hliða leikn­um og setja mark sitt á mynd­ina. Marielle Heller leikstýrir myndinni og var hún nýlega tilnefnd til DGA-verðlauna (Directors Guild of America). Með aðalhlutverk fara Kristen Wiig, Alexander Skarsgård og nýstirnið Bel Powley sem hefur vakið mikla athygli fyrir leik sinn í myndinni.

Sara Gunnarsdóttir

Sara Gunnarsdóttir

Sara ólst upp í Hafnarfirði en hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin ár þar sem hún stundaði nám í tilraunakenndri teiknimyndagerð (e. experimental animation) við CalArts-háskólann í Kaliforníu og útskrifaðist þaðan með MFA-gráðu árið 2012. Hún er núna búsett í New York og er að vinna að heimildamynd sem er að mestu teiknuð ásamt leikstjóranum Árna Sveinssyni og framleiðanda Hrúta, Grímari Jónssyni.

Myndin var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í fyrra og hefur unnið til margra verðlauna.

Jóhann Jóhannsson gestur hátíðarinnar

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson verður sérstakur gestur Stockfish hátíðarinnar að þessu sinni. Jóhann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndum, en hann hlaut m.a. Golden Globe verðlaun árið 2015 fyrir tónlist sína í myndinni The Theory of Everything. Tilnefningar til annarra verðlauna hrannast inn og má þess geta að hann er bæði tilnefndur til Bafta-verðlauna og Óskarsverðlauna árið 2016 fyrir tónlist sína í myndinni Sicario.

Þegar hefur verið tilkynnt um nokkrar aðrar myndir á hátíðinni, meðal annars Son of Saul sem tilnefnd er til Óskars sem besta erlenda myndin og Victoria sem verðlaunuð var á síðustu Berlínarhátíð. Lesa má um myndirnar hér.

Sjá nánar hér: Opnunarmynd hátíðarinnar: The Diary of a Teenage Girl – Stockfish Film Festival

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR