Lázlo Rajk og „Son of Saul“: Kvikmyndir móta minnið

Lázlo Rajk á Stockfish hátíðinni. (Ljósmynd: Juliette Rowland)
Lázlo Rajk á Stockfish hátíðinni. (Ljósmynd: Juliette Rowland)

Ungverski leikmyndahönnuðurinn Lázlo Rajk er einn heiðursgesta Stockfish hátíðarinnar í ár, en hann gerði meðal annars leikmyndina í kvikmyndinni Son of Saul sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna. Rajk vinnur þessa daga með Kristínu Jóhannesdóttur að kvikmyndinni Alma. Fréttablaðið ræddi við hann.

Magnús Guðmundsson hjá Fréttablaðinu ræddi við Rajk:

Stockfish kvikmyndahátíðinni lýkur annað kvöld en á meðal eftirminnilegri gesta hátíðarinnar í ár er ótvírætt Ungverjinn Lázlo Rajk, leikmyndahönnuður Son of Saul, í leikstjórn László Nemes, sem er talin líkleg til þess að hreppa Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu myndina. Lázlo Rajk er arkitekt, leikmyndahönnuður og prófessor í kvikmyndahönnun við kvikmyndaskólann í Búdapest og hann segir að það hafi vissulega verið mikil áskorun að hanna umhverfið í Son of Saul sem gerist í Birkenau-útrýmingarbúðunum.

„Markmiðið var ekki að endurskapa líkbrennsluna í Birkenau í smáatriðum heldur miklu fremur að skapa rýmið og rýmisnýtinguna. Ná því hvernig gasklefarnir, búningsklefarnir, læknaherbergið o.s.frv. mynduðu eina starfandi heild. Málið er að ég er upprunalega arkitekt og ég vann lengi við það að hanna verksmiðjur og eins kaldhæðið og það hljómar þá var Birkenau verksmiðja með sitt skýra starfsmarkmið. Órjúfanlegur hluti af þessari skelfilegu sögu helfararinnar er að útrýmingarbúðirnar voru hannaðar af arkitektum sem hönnuðu mjög svo virk verksmiðjurými. Þetta voru ekki bara byggingar heldur nákvæmlega hannaðar dauðaverksmiður.“

Tilhugsunin er skelfileg
Rajk segir að það hafi verið undarleg tilfinning að setjast niður til þess að hanna slíka leikmynd. „Það var undarlegt og erfitt í senn. Þegar maður er að hanna kvikmynd þá þarf maður að gæta ákveðins hlutleysis og halda ákveðinni fjarðlægð frá viðfangsefninu. En það er mjög erfitt þegar þetta er viðfangsefnið og eiginlega virkar ekki. Hitt er það að hugsunin um að þetta var hannað af arkitekt sem fór kannski í sturtu á morgnana og hugsaði um hvernig hann gæti látið verksmiðjuna vera hagkvæmari hreinlega skellir manni á vegg. Þetta er svo brjálað.

Ég hannaði sýningu um helförina í Ungverjalandi fyrir tíu árum og þá vann ég mikið af rannsóknarvinnu. Á þeim tíma áttaði ég mig á því að þessar byggingar voru byggðar af föngum, sömu föngunum og voru svo myrtir í verksmiðjunum sem þeir byggðu og þeir vissu hvað beið þeirra. En þeirra vinna er í raun gríðarlega vönduð og þetta voru ákaflega vel byggðar verksmiður. Þetta er svo sláandi að maður á erfitt með að ná utan um það.

Kvikmyndir móta minnið
Það er alltaf erfitt fyrir alla sem koma að kvikmynd eins og þessari að endurskapa hryllinginn, en við þurfum alltaf að vera meðvituð um tilfinningalega þáttinn og þær hugmyndir sem við höfum um það sem þarna átti sér stað. Birkenau var fullbyggt og tilbúið um vorið 1944 þannig að byggingin var splunkuný og ef við hefðum viljað vera sögulega rétt þá hefðum við þurft að hafa veggina hvíta, gólfin hrein, allt nýtt og snyrtilegt. En það samræmist ekki hugmyndum okkar að hafa það þannig eins undarlegt og það er. Við kvikmyndagerðarmennirnir höfum svo mikil áhrif á þetta sameiginlega minni okkar allra og heildarhugmyndina sem er þó engu að síður í ákveðinni mótstöðu við raunveruleikann og það er afar forvitnilegt. Í Son of Saul fórum við því þá leið að færa atburðina frá vori og fram á haust og það hjálpaði okkur líka að sættast við þetta ósamræmi þrátt fyrir að gólfin hefðu í raun átt að vera hrein enda var allt þrifið daglega til þess að láta húsnæðið líta fremur út eins og sturtuklefa en sláturhús.“

Prófi að hanna kvikmyndir
Lázlo Rajk er einn þeirra kvikmyndagerðarmanna sem vinna víða um veröldina og hann segir að það sé að verða mikil breyting á starfsumhverfi þeirra sem vinna að listrænum kvikmyndum. „Listrænar kvikmyndir eru alltaf að verða sífellt alþjóðlegra fyrirbæri. Hér áður fyrr var þetta eitthvað sem sneri aðallega að þröngum hópum vina og skólafélaga en það er liðin tíð.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að allir arkitektar ættu að prófa að vinna að leikmyndahönnun og aðallega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þá snýst þetta um vinnslutímann því það tekur mörg ár að hanna og byggja hús á meðan leikmyndin þarf að vera klár á þremur vikum. Þannig að maður er stöðugt að horfast í augu við þær áskoranir sem koma upp í ferlinu og það er enginn sem tekur að sér að leysa málið fyrir mann. En í arkitektúrnum hættir manni til að skella skuldinni af mistökunum á aðra. Í öðru lagi þá er leikmyndin tekin í sundur þegar tökum er lokið þannig að egóið verður ekki jafn brenglað og í arkitektúrnum þar sem allt er hugsað til eilífðar. Þannig að ég tel að það geri öllum arkitektum gott að prófa þessa vinnu.“

Elska mannskapinn
Um þessar mundir vinnur Lázlo Rajk að kvikmyndinni Alma í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur „Ég er gríðarlega ánægður með að vera að vinna að þessu verkefni sem er íslensk samtímakvikmynd þar sem fjármagn er af skornum skammti. En ég þekki þessa tilfinningu að taka á móti mönnum utan úr heimi sem hafa enga trú á því að maður nái að klára og haft allt tilbúið þegar á hólminn er komið. Þegar ég kom til íslands þá var ég orðinn hönnuðurinn sem hafði miklar efasemdir um að þetta gæti nú gengið á þessum tíma en það var allt klárt.

Ég elska mannskapinn sem ég er að vinna með á Íslandi og mér finnst ég orðinn afskaplega náinn þessu fólki. Maður kynnist fólki öðruvísi þegar maður er að vinna með því en þegar maður kemur sem ferðamaður og þetta er frábært fagfólk.
Kristín er leikstjóri með ákaflega skýra sýn og það finnst mér frábært. Við vorum auðvitað ekki sammála um allt en við rifumst ekki þó svo við höfum rökrætt um hvernig hlutirnir ættu að vera. Þannig þarf það líka að vera og ég finn að kvikmyndin er í raun tilbúin í hausnum á henni þó svo við séum aðeins hálfnuð í tökum.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR