Guðný Halldórsdóttir fær vilyrði 2017 fyrir „Ævinlega velkomin“

Guðný Halldórsdóttir (mynd: RÚV).
Guðný Halldórsdóttir (mynd: RÚV).

Guðný Halldórsdóttir hefur fengið vilyrði fyrir styrk upp á 70 milljónir úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands árið 2017 til að gera kvikmyndina Ævinlega velkomin. Guðný hefur átt í útistöðum við Kvikmyndamiðstöð síðastliðin fjögur ár og segist vera hóflega ánægð með þessa niðurstöðu – hún hefði helst viljað vera að frumsýna myndina núna.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir ennfremur:

Guðný skrifaði nokkuð hvassa grein á vef Kjarnans í byrjun síðasta árs þar sem hún gagnrýndi Kvikmyndamiðstöð harðlega í tengslum við umræðu um hversu skertur hlutur kvenna væri þegar kæmi að úthlutun úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar.

Leikstjórinn upplýsti að henni hefði sjálfri verið fleygt út úr Kvikmyndamiðstöð, stundum grenjandi.  „Flestir konsúlentar miðstöðvarinnar eru búnir að lesa handritið mitt og hafna alfarið að úr verði gerð kvikmynd og skoðanirnar á handritinu orðnar svo margbreytilegar að þær eru farnar að slaga upp í nýtt handrit um allt annað efni en til stóð í fyrstu,“ skrifaði leikstjórinn.

En fyrir stuttu ákvað kvikmyndasjóður að úthluta Guðnýju vilyrði fyrir styrk upp á 70 milljónir fyrir árið 2017. Vilyrðið er fyrir kvikmyndina Ævinlega velkomin og er sú eina sem talin er upp á þessum lista, samkvæmt vef Kvikmyndamiðstöðvar.

Guðný segir í samtali við fréttastofu að þótt vilyrðið sé komið standi hún við hvert orð í greininni á Kjarnanum – hún eigi 40 ára feril að baki í kvikmyndagerð og fannst samskiptin hvorki sniðug né sanngjörn. „Það var eins og tala við staðnað hross að eiga við þetta apparat,“ segir Guðný.

Hún kveðst hóflega ánægð með þessa niðurstöðu – helst hefði hún þó viljað vera frumsýna myndina núna enda var hún búin að útvega 100 milljónir í Noregi í myndina á sínum tíma.   Guðný ætlar þó – eins og mál standa núna – að gera myndina.

Ævinlega velkomin segir frá því þegar íslensk fyrirsæta fer fram á það við indverska konu að hún gangi með barn fyrir sig gegn greiðslu. Hún er að hluta til byggt á upplifun leikstjórans sjálfs þegar indversk fjölskylda fluttist í Mosfellsdalinn fyrir 25 árum til að setja upp stafræna kerfið. „Hún er um það hvernig hvíti maðurinn gengur alltaf yfir aðra kynþætti og þarf alltaf að hafa betur,“ segir Guðný.

Sjá nánar hér: Fær vilyrði eftir stríð við kvikmyndasjóð

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR