Andrés Indriðason fagnar 50 ára starfsafmæli á RÚV

Andrés Indriðason (til hægri) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra.
Andrés Indriðason (til hægri) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra. (Mynd: Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir-RÚV)

Andrés Indriðason dagskrárgerðarmaður náði í gær þeim áfanga að hafa unnið fyrir Sjónvarpið og Ríkisútvarpið í hálfa öld, eða frá því um ári áður en Sjónvarpið tók til starfa. Haldið var upp á starfsafmælið í Útvarpshúsinu í gær.

Sagt er frá þessu á vef RÚV:

Andrés var meðal þeirra sem svöruðu auglýsingum Sjónvarpsins sumarið 1965 þegar óskað var eftir starfsfólki. „Ég talaði við framkvæmdastjórann, Pétur Guðfinnsson, sem var eini starfsmaðurinn sem hafði verið ráðinn. Ég spurði hann hvernig starfið væri og hann sagðist ekki vera með það á hreinu, en þetta væri eitthvað í sambandi við upptökur.”

Danir kenndu Íslendingum til verka í TV-byen

Skömmu eftir ráðningu var Andrés sendur á þriggja mánaða námskeið í Árósum. „Þetta var skólinn. Hann var mjög hollur og góður. Þarna var kennt frá morgni til kvölds.” Andrés kom heim til Íslands yfir jólin en fór fljótt aftur út eftir áramót, til Gladsaxe sem var stundum uppnefnd TV-byen. Þar var stærsta stúdíóið tekið frá. „Með því fylgdu allir bestu tæknistjórar danska sjónvarpsins. Þeir áttu að kenna íslenskum tæknimönnum vinnubrögðin. Þeir komu síðan, heill farmur, ég held þeir hafi verið alveg 20, og fóru inn í stúdíóið og lærðu til verka.” Þarna var mönnum kennt hvernig ætti að fást við myndatöku, hljóðupptökur og annað sem sneri að sjónvarpsvinnslu.

Andrés fór þó í að búa til sjónvarpsþætti og tók meðal annars viðtöl við einstaklinga úr Íslendingafélaginu, sem hann þekkti suma hverja fyrir. „Þetta var mjög fínn tími. Þarna lærðu þessir tæknimenn réttu handtökin og áttuðu sig á því hvers eðlis vinnan yrði.”

Gleymdu að gera ráð fyrir leikmyndadeild

Sjónvarpið var mikil nýjung á Íslandi. „Þetta var algjörlega óplægður akur að vinna fyrir sjónvarp, eins og kvikmyndagerð. En þetta heppnaðist mjög vel. Það verður að hrósa frændum okkar á Norðurlöndum fyrir það hversu vel þeir hjálpuðu okkur,” segir Andrés og bætir við. „Síðan sendu bæði norska og sænska sjónvarpið upptökubíla. Fyrsta árið var gamall upptökubíll frá norska sjónvarpinu í raun og veru myndstjórn. Myndstjórn var ekki komin upp fyrir stúdíóið.

Þó hugað hafi verið að mörgu og áhersla lögð á góðan undirbúning uppgötvuðu menn eitt þegar átti að fara að taka upp sjónvarpsefni á Íslandi. „Það vantaði leikmyndadeild, ráðamenn höfðu ekki séð það fyrir að það þyrfti leikmyndir.” Félagi Andrésar úr Herranótt MR, Björn T. Björnsson, var fenginn um skeið til að vinna að leikmyndum og varð úr að hann ílengdist.

Tveir dagskrárgerðarmenn

Í upphafi voru aðeins tveir dagskrárgerðarmenn hjá Sjónvarpinu, Andrés og Tage Ammendrup. Síðar bættist Egill Eðvarsson í hópinn og svo hver á fætur öðrum.
Andrés var rétt skriðinn yfir tvítugt þegar hann tók til starfa hjá Sjónvarpinu. Hann hafði þá verið eitt ár blaðamaður á Morgunblaðinu og hafði unnið þætti fyrir útvarp. Hálfri öld síðar er hann enn að og hyggst halda áfram. „Skarphéðinn [Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps] sagði að ég fengi tertu næst á 60 ára afmælinu.” sagði Andrés að lokum og hló.

Sjá hér: Hálfa öld í dagskrárgerð í sjónvarpi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR