Jóhann Jóhannsson semur tónlistina í „Sicario“ sem frumsýnd var á Cannes í gær

Jóhann Jóhannsson með Golden Globe verðlaunin í hendi.
Jóhann Jóhannsson með Golden Globe verðlaunin í hendi.

Hinn Óskarstilnefndi Golden Globe verðlaunahafi Jóhann Jóhannsson semur tónlistina við nýjustu mynd leikstjórans Denis Villeneuve, Sicario, sem frumsýnd var á Cannes í gær og hefur fengið mjög góða dóma. Með helstu hlutverk í myndinni fara Emily Blunt, Josh Brolin og Benicio Del Toro. Jóhann vann áður með Villeneuve að kvikmyndinni Prisoners.

Þess má og geta að Villeneuve  vinnur nú að nýrri Blade Runner mynd sem tekin verður upp af meistaranum Roger Deakins. Ekki er ljóst hvort Jóhann komi að gerð þeirrar myndar.

Jóhann vann fyrr á árinu til Golden Globe verðlauna og var tilnefndur til Óskarsverðlauna og BAFTA verðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything.

Jóhann reyndi nýlega fyrir sér sem leikstjóri í fyrsta skipti og hefur það gefist svo vel að stutt heimildamynd hans, End of Summer, var valin besta stuttmyndin á IndieLisboa kvikmyndahátíðinni í Lissabon í Portúgal. Áður hafði hún verið valin til þátttöku á CPH:DOX heimildamyndahátíðinni í Kaupmannahöfn. Ásamt því að leikstýra myndinni samdi Jóhann tónlistina, skrifaði handritið, stjórnaði kvikmyndatöku, klippti og hljóðblandaði. Myndin verður sýnd á Skjaldborgarhátíðinni sem fram fer um helgina á Patreksfirði.

Jóhann semur einnig tónlistina fyrir dönsku heimildamyndina Good Things Await, sem er meðframleidd af Hlín Jóhannesdóttur og var sýnd á Berlinale hátíðinni í febrúar. Þá semur hann tónlistina fyrir Ófærð, nýju íslensku þáttaröðina úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, sem verður frumsýnd um jólin á RÚV.

Önnur íslensk verk sem Jóhann hefur samið tónlistina fyrir eru kvikmyndirnar Íslenski draumurinn, Maður eins og ég, Dís og Blóðbönd, ásamt stuttmyndinni Bræðrabyltu og sjónvarpsþáttunum Svartir englar.

Sjá nánar hér: Jóhann Jóhannsson semur tónlistina fyrir Sicario – vann fyrir End of Summer á IndieLisboa | FRÉTTIR | Kvikmyndamiðstöð Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR