DV um “Bakk”: Spólað í sama farinu

Bakk-þrenning situr hjá bílValur Gunnarsson skrifar í DV um kvikmynd Davíðs Óskars Ólafssonar og Gunnars Hanssonar, Bakk – og segir hana mögulega virka fyrir einhverja sem létta og skemmtilega sumarskemmtun.

Valur segir meðal annars:

Myndin fer ágætlega af stað og segir frá leikaranum Gísla sem stendur (eða öllu heldur liggur hreyfingarlaus) í skugga stórleikarans Ólafs Darra, og á erfitt með að fá hlutverk. Hann heldur heim á Hellissand og við fáum fremur snoturt skot þar sem einungis fyrstu fjórir stafir heimabæjarins sjást og lýsir tilfinningum persónunnar ágætlega.

Hingað til höfum við haft fulla samúð með okkar manni, en síðan byrjar hann að bakka. Ástæður þess að hann ákveður að bakka hringinn eru nokkrar, pabbi hans gerði það sama árið 1981, hann nennir ekki að vera heima hjá sér og lítur á þetta sem góða leið í burtu, og hann vill styrkja langveik börn með söfnun.

Í miðri mynd veltir hann því fyrir sér hvers vegna hann er að þessu, hann nennir þessu ekki sjálfur, fjölmiðlar sýna engan áhuga og söfnunin gengur illa. Áhorfandinn getur ekki annað en velt því sama fyrir sér, engin sérstök ástæða er gefin fyrir að halda með honum og honum virðist nokkuð sama um langveiku börnin.

Enn verra er að persóna Gísla verður ósympatískari eftir því sem á líður. Hann er fram úr hófi sjálfselskur en er þó haldinn framkvæmdafælni og getur ekki klárað neitt, en er á hinn bóginn gefinn fyrir að barna konur sem hann stingur af eða heldur framhjá. Hér hefði verið tilvalið að segja þroskasögu manns sem á endanum lærir að vera annt um eitthvað annað en sjálfan sig, en vandinn er bara sá að hann Gísli okkar lærir ekki neitt.

Undir lok myndar skilar hann eigandanum biluðum bíl en peningurinn til barnanna kemst ekki allur til skila og allt er við sama horf í byrjun. Meira að segja tilgangslaus slagsmál við sveitatöffara verða ekki sú sáluhjálp sem vonast var eftir, né heldur hin oblígatoríska eldræða vinarins sem telur upp alla hans galla.

Sjá nánar hér: Spólað í sama farinu – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR