spot_img

Eru fjölmargar íslenskar kvikmyndir glataðar að eilífu?

Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.
Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

„Fjölmargar íslenskar kvikmyndir eru glataðar að eilífu. Forseti félags íslenskra kvikmyndatökustjóra segir óbætanleg menningarverðmæti hafa farið forgörðum og vill að efnt verði til átaks til að varðveita kvikmyndir“.

Þannig hljóðaði kynning RÚV á efni viðtals sem tekið var við Bergstein Björgúlfsson, kvikmyndatökustjóra og forseta félags þeirra í fréttum sjónvarpsins 7. maí s.l. Bersteinn segir í viðtalinu að

„það má segja bara að þetta sé í hreinum ólestri. Það hefur enginn einn aðili séð um að halda utan um þetta, þetta hefur verið bara svona hipsum haps hvar hver mynd endar. Og menn ekki haft hvorki tíma né fjármuni til þess að ganga á eftir þessu, þannig að það er bara svona happa og glappa hvar þær hafa lent. Og margar þeirra eru bara glataðar.“

Og Bergsteinn heldur áfram og segir að

„menningarverðmæti hafi farið þannig forgörðum og alltof lítið gert að því að skanna inn í bestu gæðum til varðveislu.“

Þarna féllu stór orð sem vakið hafa athygli. Ég vona að umræðan um málefni kvikmyndarfsins, sem Félag kvikmyndatökustjóra hefur nú efnt til í góðum tilgangi, fyrst með tveimur viðtölum í kvikmyndaþætti RÚV, Djöflaeyjunni, og nú síðast í kvöldfréttum, eigi eftir að gagnast okkur vel sem viljum sjá stórstígar framfarir á þessum vettvangi.

Félag þetta starfar undir kjörorðunum: Fagmennska – metnaður – þekking. Kvikmyndatökumennirnir hafa hér mikið til málanna að leggja eins og fram hefur komið í viðtölum við þá. En þeir sem hafa sýslað við kvikmyndagerð lungann úr starfsævi sinni vita að jafnvel þótt stillt sé upp í panoramaskot, jafnvel hringpan, þá kemst ekki allt umhverfi tökuvélarinnar fyrir í einu panórama. Það verður alltaf eitthvað útundan hvað sem fagmennsku, metnaði og þekkingu líður. En það er verra ef menn sjá ekki hvað þurfi að vera með í skotinu.

Þannig hefur Kvikmyndasafnið t.d. ekki komist inn í myndramma ÍKS í viðtölunum sem minnst er á hér að framan, ekki brot af því, líkt og það væri ekki til. Á það er aldrei minnst. Hvað þá skilaskyldulög, sem safnið starfar eftir og kveða á um skilduskil kvikmynda og kvikmyndalög sem leggja á herðar Kvikmyndasafnsins þá skyldu að vinna að viðgerð kvikmynda og varðveita kvikmyndaarf þjóðarinnar fyrir komandi kynslóðir. Nei, „allt er í ólestri og enginn aðili [hefur] séð um að halda utan um þetta“.

Skrifari þessa pistils finnur sig því knúinn til að minna á tilvist safnsins í þessari umræðu og það starf sem þar er unnið. Því það er einfaldlega ekki rétt að „enginn einn aðili hafi séð um að halda utan um þetta“, og að „þetta hafi verið bara svona hipsum haps hvar hver mynd endar“.

Kvikmyndasafnið hefur á tæplega sex starfsmönum að skipa við að safna, varðveita, skrásetja, miðla og rannsaka kvikmyndaarfinn og hefur verið til síðan 1978. Hitt er að vísu alveg hárrétt sem lesa má út úr orðum forseta tökustjórafélagsins að það vantar alltaf fé til framkvæmda, mannafla og tíma en það er samt verið að vinna að því að klífa þennan illkleyfa hamar með þeim fjármunum og kröftum sem úr er að spila.

Sem dæmi má nefna að sama dag og félag kvikmyndatökustjóranna sendi frá sér fréttatilkynningu, sem leiddi til áðurnefnds sjónvarpsviðtals og mér fannst ástæða til að gera athugasemdir við eins og sjá má Facebook síðu safnsins og á Klapptrénu, þá veitti safnið viðtöku 2,5 tonnum af filmum á 6 brettum tilheyrandi 12 titlum sem safninu í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð hafði tekist að leysa úr prísund í laboratoríum í London með umtalsverðri fyrirhöfn og kostnaði.

Var farin sú leið að láta skanna frumnegatífurnar í 2K gæðum sem dugar fyrir nútímasýningar í kvikmyndahúsum og var það liður í því að liðka fyrir samningum enda þurfti hvort eð er að láta skanna kvikmyndirnar erlendis. Fyrr í vetur kom allt kvikmyndaefni heim tilheyrandi 4 titlum til viðbótar úr öðru laboratorí í London, sem líka var skannað í 2K. Núna er búið að losa um eina mynd í Kaupmannahöfn og senda aðra þangað til skönnunar svo úr verður tvenndarpakki til skönnunar í 2K og efninu síðan skilað heim til Kvikmyndasafnsins.

Áður hafði forveri undirritaðs og Kvikmyndamiðstöð  lagt mikla vinnu í endurheimt kvikmynda frá Danmörku, Englandi og Þýskalandi og Kvikmyndamiðstöð beitt sér fyrir skönnunum með öflun fjárveitingar úr sjóðum erlendis.

Framlag ríkisins 2013 – 2015

Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, lagði áherslu á endurheimt kvikmynda úr laboratoríum erlendis og viðgerð þeirra fljótlega eftir að hann tók við starfi menntamálaráðherra en í því fólst mikill stuðningur við þetta mikilvæga verkefni. Veitt  hefur verið 3×10 milljónum til endurgerða kvikmynda, 10 milljónum á ári á tímabilinu 2013 – 15.

Hefur safnið unnið að þessu verkefni í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð án þess þó að slegið væri slöku við annað sem er á fyrrgreindu fimmföldu verkefnasviði þessarar fámennu stofnunar og lýtur m.a. að margvíslegri þjónustu á sviði skönnunar fyrir kvikmyndagerðamenn og sjónvarpsstöðvar sem og einstaklinga sem færa safninu kvikmyndir að gjöf sem hafa þjóðmenningarlegt gildi.

Má rekja þetta skönnunarstarf safnsins aftur til ársins 2007 þegar safnið eignaðist eigin skanna sem þá var góður en nú er að verða úreltur.

Varðveislan er margslungin

Undirrituðum er vel kunnugt um ýmsar kvikmyndir sem farið hafa forgörðum að eilífu eins og það er orðað í sjónvarpsviðtalinu, t.d. myndir sem urðu til á upphafsárum síðast liðins áratugar. Nefna má til sögunnar Íslandsmynd Svíans Albert Engströms frá 1913, eða megnið af Íslandsmynd Svía frá 1920 sem gerð var í 4 hlutum eða mikilvæga spólu með togaraefni tilheyrandi ófrágenginni Íslandsmynd danans A. M. Dam frá 1939 o.s.frv.

Helmingur frumfilmu sjónvarpsmyndarinnar Lénharður fógeti glataðist þegar laboratoríið Universal fór á hausinn og fleira mætti nefna. Ég veit ekki hvaða myndir Bergsteinn er að tala um, sem glatast hafa að eilífu. Væntanlega eru það myndir sem standa okkur nær í tíma og við hefðum getað forðað frá glötun. En hverjar eru þær?

Þó að helmingurinn af frumfilmu Lénharðs fógeta hafi glatast þá er myndin sem slík ekki glötuð að eilífu. Það væri hægt að gera hana upp með því að nýta það besta úr tveimur sýningarkópíum og helmingnum af frumefninu þó svo að útkoman verði ekki eins góð og ella hefði orðið.

Gera þarf greinarmun á filmukvikmyndum og stafrænum kvikmyndum og skilja á milli frummynda og sýningarmynda. Ef frummyndefni eins og negatíf hefur glatast en negatíf sem gert var eftir frumnegatífinu hefur varðveist, eins og á við um Atómstöðina, eða jafnvel sýningarkópía og myndbandsyfirfærsla eins og varð raunin í tilviki Brekkukotsannáls þar sem negatífið sjálft er glatað, þá getum við ekki talað um að kvikmynd hafi glatast að eilífu, því hægt er að gera myndir upp sem svona er ástatt um þótt gæðin verði minni. Það kallar hins vegar á  nýja skýrgreiningu á frumefni þeirra. Nú er búið að gera upp Brekkukotsannál með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns og myndin komin á markað fyrir skóla og söfn.

Fullyrðing forseta félags kvikmyndatökustjóra um „að varðveislumálin séu í hreinum ólestri, að það hafi enginn einn aðili séð um að halda utan um þetta, að þetta hafi verið bara svona hipsum haps hvar hver mynd endar“ er ekki sanngjörn og ber jafnvel vott um þekkingarleysi. Þetta er einfaldlega ekki rétt þó við vitum að alltaf megi gera betur og misbrestur geti orðið á í einstaka tilvikum. En í langflestum tilvikum er kvikmyndaarfurinn varðveittur í Kvikmyndasafni Íslands.

Það er hins vegar rétt hjá honum að það þarf að gera átak í að skanna kvikmyndaarfinn í fullum gæðum, bíómyndir, heimildarmyndir og sjónvarpssafnið. Fyrr verður efnið ekki  aðgengilegt til sýningar auk þess sem hægt er að lagfæra kvikmynd með undraverðum árangri með litgreiningu og hljóðvinnslu eftir að mynd hefur verið gæðaskönnuð eins og þeir sáu sem horfðu á sjónvarpsþáttinn Djöflaeyjuna fyrir nokkru síðan.

Skönnun, litgreining og hljóðvinnsla er nauðsynleg til að hægt sé að sýna kvikmyndir í nútíma kvikmyndahúsi og sjónvarpi. Kvikmyndasafnið hefur t.d. látið gera Morðsögu þannig upp frá grunni og bíður hún endurfrumsýningar. Kvikmyndin Gullsandur hefur nýlega verið endurfrumsýnd í stafrænu formi, eftir að hafa verið týnd um langt skeið í kvikmyndalaboratorí í London. Benjamín dúfa sem var föst í London er kominn í hendur leikstjórans sem vinnur að litgreiningu hennar.

Kvikmyndasafnið hefur lagt megin áherslu á skönnunarþáttinn sem er um einn þriðji af kostnaðinum við að gera kvikmynd upp. Þannig er von til þess að myndir sem flestra fái gæðaskönnun sem er liður í að tryggja framhaldslíf þeirra. Hafi menn hins vegar möguleika á að dreifa nýskannaðri kvikmynd og sjá fram á að geta fjármagnað litgreininguna af þeim sökum geta þeir fengið skannið til litgreiningar. Þegar að þeim verkþætti kemur er mikilvægt að koma á fyrirkomulagi sem tryggir aðkomu kvikmyndatökumannanna að litgreiningunni, sem þeir bera ábyrgð á eins og fram kom í viðtalinu við forseta Félags kvikmyndatökustjóra.

En áfram þarf að varðveita frumefnið í frystigeymslu Kvikmyndasafnins þótt myndir hafi verið yfirfærðar í stafrænt form (DCP) því þar er grunnurinn sem ný tækni í framtíðinni þarf að geta nýtt sér.

Skanner er lausnin

Það er kannski ekkert óeðlilegt við það að aðgengi að sýningareintökum gamalla kvikmynda sé takmarkað og að slíkar kvikmyndir endi á Kvikmyndasafni sem er eini aðilinn sem hefur fram til þessa haft sýningabúnað til að sýna þær á filmu án þess að þeim sé hætta búin. Þegar ekki var hægt að útvega 35mm sýningareintak af Landi og sonum til sýningar á vegum ÍKS nýlega þá var það ekki vegna þess að filmueintak væri ekki til heldur vegna þess að það voru ekki fyrir hendi réttar aðstæður til að sýna filmuna.

Með þetta allt í huga og þá uggvænlegu staðreynd að senn rennur út tími sérfjárveitingar ríkisins til skönnunar og viðgerða á kvikmyndum frá filmutímanum, hefur safnið velt fyrir sér næstu skrefum og komist að því að í stað þess að verja tugum milljóna í skannanir erlendis, með dýrum og hættulegum flutningi frumfilma og frumhljóðs landa á milli auk annars óhagræðis, sé eina leiðin fyrir framhald verkefnisins að Kvikmyndasafnið eignist nýjan skanna.

Safnið hefur kannað á undanförnum mánuðum hvaða skanni myndi henta því og lagt niður fyrir sér rökstuðning fyrir slíkum kaupum. Tilboð í heppilegan skanna sem myndi duga safninu amk. næstu 15 árin liggur nú fyrir og mun safnið kynna niðurstöður sínar og röksemdir áður en langt um líður þeim sem hafa ákvörðunarvald í málinu. Það er hins vegar skoðun Kvikmyndasafnsins að Íslendingar sem þjóð verði að hafa efni á því að eiga einn slíkan skanna sem kannski kostar ekki meira en sem nemur upphæð eins myndarlegs flutningabíls með tengivagni á þjóðvegum landsins, ígildi skanna fælist í andvirði slíks trukks sem dyggði okkur til að flytja kvikmyndaarfinn inn í nútímann.

Við vonum að staðan sé ekki eins slæm og ráða má af orðum forseta kvikmyndatökustjóra, nema hann eigi eftir að skjóta okkur skelk í bringu með sláandi dæmum, sem gæti vel orðið þó ég leyfi mér samt að efast um það.

Þangað til skulum við halda ró okkar og vinna með uppbyggilegum hætti að framgangi þessa mikilvæga verkefnis á sviði íslenskrar kvikmyndaarfleifðar. Við þurfum að sjá heildarmyndina í réttu ljósi, jafnvel lýsa hana til að ná árangri eins og stundum þarf að gera þegar verið er að skanna dökkt og illa lýst skot og ekki pana framhjá því sem máli skiptir og þarf að vera með í skotinu.

Erlendur Sveinsson
Erlendur Sveinsson
Höfundur er forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR