„Brekkukotsannál“ bjargað

Ekki ein sekúnda í sjónvarpsþáttaröðinni Brekkukotsannál var í lagi í eintaki sem til var hér á landi. Þetta stóra verkefni, sem er rúmlega 40 ára, hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga með ærinni fyrirhöfn.

Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld. Þar segir ennfremur:

Upprunalega filma myndarinnar er ekki til og eintak sem til er hér á landi er nær ósýningarhæft. En það fundust eintök bæði í Þýskalandi og Noregi.

„Þegar var búið að pússla þessu saman þá kom út heil mynd. Það var alltaf þannig að það sem var ónýtt í íslenska það var þá til í þýska og ef það var ekki í þýska þá var það til í þessu norska,“ segir Halldór Þorgeirsson, kvikmyndagerðamaður.

Halldór segir að á íslenskan mælikvarða væri Brekkukotsannáll enn þá stórmynd.

„Þetta er með stærstu leikmyndum sem hafa verið byggðar á Íslandi. Hvað myndi þetta kosta að gera hana í dag? Ekki minna en 400, kannski 500. Milljónir. Já, það var byggð heil gata Langastétt. Það var allt, sem sagt, það var var óskaplega vel að þessu staðið.“

Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs Laxness og leikstjóri, telur að sjónvarpið hafi aldrei farið í jafn dýra framkvæmd, hvorki fyrr né síðar.  Brekkukotsannáll var fyrsta myndin sem hún vann að – hún var sautján ára og var aðstoðarkona í búningum.

„Svo var ég nefnilega líka aðstoðarkona við að hlýða leikurum yfir, hlýða þeim yfir textann. Sérstaklega Jóni Laxdal, hann hafði svo mikinn texta og var vanur að leika á þýsku. Sem gerði það að verkum að ég kann myndina og söguna utan að.“

Brekkukotsannáll var tekin upp 1972 og  fjármögnuð af Ríkisútvarpinu, Sambandi norræna ríkissjónvarpsstöðva og Þýska sjónvarpinu. Íslendingar unnu við myndina nema kvikmyndatökumaðurinn og Rolf Hädrich leikstjóri og handritshöfundur.

Sjá nánar hér: Brekkukotsannál bjargað | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR