BBC kaupir „Ófærð“

Bjarne Henriksen og Ólafur Darri Ólafsson í Ófærð.
Bjarne Henriksen og Ólafur Darri Ólafsson í Ófærð.

BBC Four mun sýna þáttaröðina Ófærð (Trapped) en rásin hefur lagt mikla áherslu á erlendar þáttaraðir á undanförnum árum. Norrænar þáttaraðir á borð við Borgen, Forbrydelsen og Broen hafa notið þar mikilla vinsælda.

Þetta er í fyrsta skiptið sem BBC kaupir íslenskt drama en fyrir nokkrum árum sýndi stöðin gamanþáttaröðina Næturvaktina.

Þættirnir, sem byrja í sýningum á RÚV undir lok árs, gerast í íslensku sjávarþorpi þar sem illa útleikið lík finnst um leið og mikið óveður hefst þannig að enginn kemst lönd né strönd.

Tökum er um það bil að ljúka en þær hafa staðið á Siglufirði, Seyðisfirði og víðar með hléum síðan í haust. RVK Studios Baltasars Kormáks framleiðir þættina sem eru tíu talsins. Baltasar leikstýrir einnig hluta þeirra en aðrir leikstjórar eru Baldvin Z, Óskar Axelsson og Börkur Sigþórsson.

Sigurjón Kjartansson skrifar handritið ásamt Clive Bradley en einnig koma Ólafur Egill Egilsson og Jóhann Ævar Grímsson við sögu. Sigurjón hefur jafnframt yfirumsjón með verkinu (showrunner). Kostnaður nemur rúmum milljarði króna sem gerir þetta að langstærstu og dýrustu þáttaröð sem framleidd hefur verið af íslenskum aðilum.

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið en í öðrum stórum hlutverkum eru meðal annars Bjarne Henriksen (Forbrydelsen), Ilmur Kristjánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Þorsteinn Bachmann.

Bransavefurinn TBI Vision vitnar í Cassian Harrisson dagskrárstjóra BBC Four:

“BBC Four er leiðandi í sýningum á alþjóðlegum þáttaröðum víðsvegar að og ég er mjög ánægður að geta sýnt þessa grípandi og stemmningsríku spennuþáttaröð – sem er okkar fyrsta slíka frá Íslandi – á stöðinni.“

TBI Vision hefur einnig eftirfarandi eftir Sue Deeks, innkaupastjóra hjá BBC:

“Virkilega grípandi saga, stórkostlegt íslenskt umhverfi og hinn víðkunni kvikmyndaleikstjóri Baltasar Kormákur var blanda sem ekki var hægt að standast. Ég er þess fullviss að áhorfendur BBC Four eigi mikla veislu í vændum.“

Sjá nánar hér: Trapped marks Icelandic drama first for the BBC – TBI Vision TBI Vision

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR