Útskrifast frá NFTS og gerir samning við breska umboðsskrifstofu

Rammi úr Brothers. Til hægri: Þórður Pálsson leikstjóri.
Rammi úr Brothers. Til hægri: Þórður Pálsson leikstjóri.

Þórður Pálsson útskrifaðist á dögunum frá The National Film and Televsion School (NFTS) í Bretlandi með MA gráðu í leikstjórn. Hann hefur nú skrifað undir samning hjá bresku umboðsskrifstofunni Sayle Screen og vinnur nú að handriti sinnar fyrstu bíómyndar ásamt fyrrum samnemanda. Klapptré ræddi stuttlega við Þórð.

Útskriftarmynd Þórðar frá NFTS kallast Brothers og segir af hinum sextán ára gamla Chris sem býr með vandræðagemsanum bróður sínum David í niðurníddu þorpi við sjávarsíðuna. Einn örlagaríkan dag finnur hann David í blóði sínu á stofugólfinu um sama leyti og falleg utanbæjar stúlka kemur óvænt inn í líf hans. Hún verður til þess að Chris dreymir um eitthvað betra, en David virðist enn einu sinni ætla að drepa þá von í fæðingu og draga hann aftur niður í svaðið.

Sjá má stiklu myndarinnar hér:

NFTS hefur ítrekað verið valinn fremsti kvikmyndaskóli heims, nú síðast 2013 af CILECT, samtökum kvikmyndaskóla og í fyrra af The Hollywood Reporter. Klapptré spjallaði við Þórð um dvölina þar og verkefnin framundan, en Þórður nam áður kvikmyndagerð við Kvikmyndaskóla Íslands.

Klapptré: Hvernig var þín reynsla af NFTS?

Þórður: Tími minn hjá NFTS hefur verið frábær, ég hef lært mjög mikið um praktíska kvikmyndagerð en mest áhersla er lögð á að vinna með leikurum og handrits þróun. Ég var mjög ánægður með að fá að gera þrjár stuttmyndir yfir þessi tvö ár sem námið tók, þannig ég hef náð að prófa mig áfram á ýmsum mismunandi kvikmynda genrum.

Það sem er öðruvísi og að öllu leyti betra en sumir aðrir kvikmyndaskólar er að þú færð frekar stórt budget frá skólanum til að gera þessar stuttmyndir, þegar aðrir kvikmyndaskólar láta nemendur sína alfarið um að safna fyrir þeim sjálfir.

Skólinn sjálfur og fólkið sem vinnur hérna hefur verið frábært og mér líður eins og ég þekki alla mjög persónulega. Samnemendur mínir á árinu eru líka allir frábærir og hef ég eignast marga vini sem ég mun vonandi eiga það sem eftir er.

Klapptré: Hvað tekur svo við eftir útskrift?

Þórður: Ég útskrifaðist í lok febrúar með MA í Directing Fiction. Daginn fyrir útskriftina hélt NFTS sýningu fyrir iðnaðinn hérna á Englandi þar sem flest öll framleiðslufyrirtæki og umboðsskrifstofur komu og horfðu á lokaverkefnin okkar. Eftir útskrift  hef ég verið að fara á fundi hjá ýmsum framleiðslufyrirtækjum að ræða mína fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem ég er að skrifa með vini mínum Matthew Jankes, sem útskrifaðist með mér úr NFTS.

Fyrir viku síðan skrifaði ég undir samning við umboðsskrifstofuna Sayle Screen. Sayle Screen er mjög virt umboðsskriftofa hérna á Englandi. Hún tekur ekki að sér marga leikstjóra á ári og varð ég fyrir valinu að þessu sinni. Þeir leikstjórar sem þau eru með eru t.d. verðlauna leikstjórarnir Andrea Arnold (Fish Tank), Clio Bernard (The Selfish Giant) og Yorgos Lanthimos (Dogtooth).

Svo var ég var að fá fréttir af því að stuttmyndin mín Goodbye Heart komst inn í Newport Beach Film Festival. Ég og aðalleikari myndarinnar Ciaran Kellgren erum að fara til Bandaríkjana á frumsýninguna þann 23. apríl.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR