„Vonarstræti“ valin besta myndin á Febiofest í Prag

Baldvin Z ræðir mynd sína á Febiofest í Prag.
Baldvin Z ræðir mynd sína á Febiofest í Prag.

Vonarstræti Baldvins Z var valin besta myndin á Febiofest kvikmyndahátíðinni sem fram fór í Prag í Tékklandi 19. – 27. mars. Myndin tók þátt í aðalkeppni hátíðarinnar er nefnist „New Europe“ og varð þar hlutskörpust gegn 11 öðrum kvikmyndum. Baldvin var sérstaklega boðið af aðstandendum á hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.

Þetta eru fjórðu alþjóðlegu verðlaunin sem Vonarstræti hlýtur síðan hún var frumsýnd á erlendri grundu á hinni virtu Toronto kvikmyndahátíð í september síðastliðnum. Vonarstræti hlaut aðalverðlaun fyrir bestu mynd á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi, Hera Hilmarsdóttir hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á aþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Zürich og myndin var valin besti nýliðinn á Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðinni í Eistlandi.

Þar að auki hlaut Vonarstræti metfjölda Edduverðlauna á Edduverðlaunahátíðinni sem fór fram í febrúar síðastliðnum. Edduverðlaunin sem myndin hlaut voru 12 talsins, þar á meðal fyrir bestu mynd, besta leikstjóra, besta handrit, besta leikara í aðalhlutverki og bestu leikkonu í aðalhlutverki.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR