Vinnur Sprettfisk og gerir stuttmynd

Ísold Uggadóttir og Árni Óli Ásgeirsson dómefndarfulltrúar veita Evu Sigurðardóttur (í miðið) verðlaun Sprettfisks fyrir myndina Foxes sem hún framleiddi. Ljósmynd: Carolina Salas.
Ísold Uggadóttir og Árni Óli Ásgeirsson dómefndarfulltrúar veita Evu Sigurðardóttur (í miðið) verðlaun Sprettfisks fyrir myndina Foxes sem hún framleiddi. Ljósmynd: Carolina Salas.

Úrslit Sprettfisks, stuttmyndakeppni Stockfish, voru tilkynnt við glæsilega lokaathöfn hátíðarinnar s.l. laugardagskvöld. Foxes eftir Mikel Gurrea hlaut verðlaun dómefndarinnar, en myndin er framleidd af Evu Sigurðardóttur og fyrirtæki hennar Askja Films.

Umsögn dómnefndar um myndina er svohljóðandi:

“Heilsteypt og einlægt verk sem á erindi við nútímann. Næmni höfundar fyrir persónusköpun er áþreifanleg, um leið og leikstjórn er sannfærandi og örugg. Í einfaldri sögu er dregin upp mynd af raunveruleika sem ófáir munu kannast við.”

Kitlu Foxes má skoða hér að neðan:

Leikstýrir sinni fyrstu stuttmynd

Eva Sigurðardóttir hefur framleitt fjölda stuttmynda auk annarra verkefna og m.a. verið tilnefnd til hinna virtu BAFTA verðlauna fyrir framleiðslu á stuttmyndinni Good Night árið 2013. Í lok mars mun Eva þreyta frumraun sína sem leikstjóri með stuttmyndinni Regnbogapartý.

Myndin fjallar um Soffíu, 14 ára stelpu, sem er lögð í einelti og þráir ekkert heitar en að falla í hópinn. Hún tekur afgerandi skref til þess að ná markmiði sínu en það dregur stærri dilk á eftir sér en hana hafði grunað.

Eva skrifar einnig handritið á myndinni en þetta er í fyrsta sinn sem Askja Films framleiðir mynd sem tekin er upp á Íslandi.

Kitla fyrir Regnbogapartý:

Regnbogapartý sem verður tekin í lok mars fær stuðning og meðbyr úr ýmsum áttum. Eva fór til Cannes á síðasta ári og sigraði þar pitchkeppni SHORTS-TV og hlaut 5.000 evrur fyrir sem nýtist í framleiðslu myndarinnar. Einnig var handritið að Regnbogapartý valið í Doris Films verkefnið sem er á vegum WIFT á Íslandi. Myndin er framleidd í samstarfi við Sagafilm, Ares Films og Booruffle Films en einnig styrkt af Evrópu unga fólksins og Kvikmyndamiðstöð Íslands. Þess utan hlaut myndin framleiðslustyrk frá Bretlandi í gegnum Film London þar sem að verkefnið var valið úr hundruðum annara í gegnum London Calling keppnina.

Vefur Askja Films.

Facebook síða Askja Films.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR