Endurbætt útgáfa af „Benjamín dúfu“ væntanleg síðar á árinu

Benjamín dúfa still
Sturla Sighvatsson er Benjamín dúfa í samnefndri kvikmynd.

Kvikmyndin Benjamín dúfa (1995) verður til sýnis síðar á árinu í endurbættri útgáfu (restoration) en um þessar mundir er unnið að stafrænni endurvinnslu myndarinnar. Þetta kemur fram á Facebook síðu leikstjórans, Gísla Snæs Erlingssonar, sem hefur yfirumsjón með verkinu.

Gísli Snær, sem starfað hefur sem skólastjóri kvikmyndadeildar Lasalle listaháskólans í Singapore undanfarin ár, segir meðal annars:

Brátt mun Benjamín dúfa taka flugið í allri þeirri dýrð sem henni var ætluð. Við erum núna að vinna að 2K stafrænni útgáfu (DCP) sem við vonumst til að sýna í kvikmyndahúsum fljótlega. Ég og félagar mínir, Friðrik Erlingsson [handritshöfundur og höfundur skáldsögunnar] og Baldur Hrafnkell Jónsson [framleiðandi] erum afar spenntir, ekki síst vegna þess að okkur gafst aldrei tækifæri til að sýna þá mynd sem við vildum. Það var einfaldlega ekki í okkar höndum. Þetta er skuggahliðin á alþjóðlegri samframleiðslu og óheppilegum samstarfsaðilum, sem því miður kæfðu myndina og gerðu okkur ókleift að gefa hana út á DVD eða Blu-ray. En núna – AÐEINS 20 árum síðar, höfum við fengið öll réttindi í okkar hendur og munum stoltir sýna hana bráðlega eins og við vildum og ætluðum okkur ávallt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR