Hera Hilmarsdóttir er Rísandi stjarna

Hera Hilmarsdóttir.
Hera Hilmarsdóttir.

Hera Hilmarsdóttir leikkona hefur verið valin í Shooting Stars hópinn árið 2015. Árlega velja European Film Promotion (EFP) samtökin 10 unga og efnilega leikara og leikkonur úr hópi aðildarlanda samtakanna, sem vakið hafa sérstaka athygli og kynnir þá sérstaklega á Berlinale kvikmyndahátíðinni.

Hvert ár er hópurinn kynntur með pompi og prakt á hátíðinni, sem að þessu sinni fer fram 5. – 15. febrúar. Meðlimir EFP samtakanna innihalda 36 kvikmynda- og kynningarmiðstöðvar frá 35 löndum og er Kvikmyndamiðstöð Íslands aðili að samtökunum.

Dómnefnd sagði um valið á Heru:

„Valið á Heru var auðvelt þar sem hún hefur sýnt fram á að hún er jafn hæfileikarík og fær um að túlka tilfinningar á bæði ensku og íslensku, þar sem hún leikur t.a.m. sögulegar persónur og nútímapersónur með jafn áreynslulausum hætti. Þrátt fyrir tímalausa englaásjónu sína kemur fjölhæfni hennar á óvart – það bærist sannarlega eldmóður innra með henni.“

Hera hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína í Vonarstræti, framlagi Íslands til Óskarsverðlaunanna 2015, og hefur t.a.m. hlotið hlotið sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Zürich fyrir leik sinn í myndinni.

Hera hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu á sviði leiklistar bæði hér á landi og í Englandi og lék t.a.m. aðalhlutverk í Veðramótum eftir Guðnýju Halldórsdóttur og síðar í stórmyndinni Anna Karenina og hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Da Vinci‘s Demons, þar sem hún fer með stórt hlutverk. Nýjasta kvikmyndin sem Hera leikur í er Get Santa, gamanmynd sem skartar m.a. Jim Broadbent og Warwick Davis í aðalhlutverkum.

Íslenskir leikarar sem áður hafa verið valdir í Shooting Stars hópinn eru:

  • Ingvar E. Sigurðsson 1999,
  • Hilmir Snær Guðnason 2000,
  • Baltasar Kormákur 2001,
  • Margrét Vilhjálmsdóttir 2002,
  • Nína Dögg Filippusdóttir 2003,
  • Tómas Lemarquis 2004,
  • Álfrún Örnólfsdóttir 2005,
  • Björn Hlynur Haraldsson 2006,
  • Gísli Örn Garðarsson 2007,
  • Hilmar Guðjónsson 2012,
  • Edda Magnason (íslensk/sænsk leikkona sem var valin fyrir hönd Svíþjóðar) 2014.

Á árunum 1998-2007 var fjöldi þátttakenda á milli 16-25 en frá og með árinu 2008 hafa einungis 10 leikarar verið valdir í Shooting Stars hópinn. Í ár var valið úr 23 manna hópi aðildarlanda. Þetta er í 18. sinn sem Shooting Stars fer fram á Berlinale hátíðinni. Dæmi um þekkta leikara sem hafa verið Shooting Stars eru m.a. Daniel Craig (2000), Daniel Brühl (2003), Nikolaj Lie Kaas (2003) og Carey Mulligan (2009).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR