87% fjármagns Kvikmyndasjóðs fer til karla

Dögg Mósesdóttir og Laufey Guðjónsdóttir.
Dögg Mósesdóttir og Laufey Guðjónsdóttir.

Á árunum 2000 til 2012 fór 87% fjármagns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til karla og konur leikstýrðu aðeins 15% íslenskra kvikmynda á árunum 2000 til 2009. Þetta kemur fram í rannsókn Ívars Björnssonar á konum í íslenskri kvikmyndagerð sem skoða má hér.

Halla Harðardóttir blaðamaður hjá Fréttatímanum fjallar um málið og ræðir við Dögg Mósesdóttur formann WIFT og Laufeyju Guðjónsdóttur forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar. Dögg segir stelpur þurfa hvata til að fara í kvikmyndagerð og því sé mikilvægt að merkja hluta styrkjanna konum, líkt og gert er í Svíþjóð. Laufey segir Kvikmyndasjóð vera með jafnréttissýn en erfitt sé að hrinda jafnréttisáætlun í framkvæmd.

Í fréttinni kemur þetta fram:

Dögg Mósesdóttir, formaður Wift á Íslandi, Félags kvenna í kvikmyndagerð, segir hluta vandans liggja í því að færri konur en karlar sæki um styrki og að róttækar breytingar þurfi til að breyta því. Stelpur þurfi hvata til að fara í kvikmyndagerð og því sé mikilvægt að merkja hluta styrkjanna konum, líkt og gert er í Svíþjóð.

Vantar jafnréttisáætlun

„Miðað við þær tölur sem hafa komið fram þá lítur út fyrir að konur séu líklegri til að fá styrk ef þær sækja um en það er samt ekki yfirlýst stefna hjá Kvikmyndamiðstöð og þar af leiðandi er engin pressa á framleiðendur að veðja á konur. Það eru fleiri karlframleiðendur á Íslandi en kvenframleiðendur og þeir eru oft að vinna með æskuvinum eða félögum sínum. Mín kenning er sú að Kvikmyndamiðstöð geti gert helling til að breyta þessu ójafnvægi með því að vera með einhverskonar jafnréttisáætlun. Ef ákveðinn hluti styrkjanna væri merktur konum þá myndi skapast eftirspurn eftir konum í bransann, þær væru hvattar til að fara í kvikmyndanám og það hefði rosaleg margfeldisáhrif,“ segir Dögg.

Dögg nefnir „sænsku leiðina“ í þessu samhengi þar sem yfirlýst jafnréttisátak hefur komið hlutfalli kvenna upp í 40%. „Auðvitað tekur allt sinn tíma og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að breytingarnar gerist á einu ári en eitthvað þarf að gerast. Auðvitað mega konur taka sig á og sækja meira um en það er ákveðinn valdastrúktúr í gangi sem er erfitt að brjótast í gegnum nema með róttækum leiðum. Það hefur sýnt sig að það er ekki skortur á sögum hjá konum því þegar við settum handritasamkeppnina Doris á laggirnar þá bárust okkur 102 umsóknir. Þetta voru konur af öllum stigum samfélagsins sem vildu segja sögur sem hafa aldrei heyrst áður.“

Erfitt að framkvæma jafnréttisáætlun

Laufey Guðjónsdóttir hefur starfað sem forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands frá árinu 2003. Hún fagnar því að umræðan sé komin upp á yfirborðið. Hún segir áberandi vöxt í handritaskrifum kvenna, stuttmyndagerð og heimildamyndum en að lítil ásókn kvenna í leiknar myndir í fullir lengd sé margslungið vandamál sem hún sjái ekki eina lausn á. Hún segir Kvikmyndasjóð vera með jafnréttissýn en erfitt sé að hrinda jafnréttisáætlun í framkvæmd. „Þá þyrfti ráðuneytið að strúktúrera þetta allt öðruvísi, fjárveitingar, reglugerðir og úthlutanir úr sjóðnum. Við erum með rosalega stífar reglugerðir sem við þurfum að fara eftir svo það þyrfti að breyta allri umgjörðinni.“
„Ég held að við séum með jafnréttissýn, en sjóðurinn er hálfgerð endastöð. Það þarf eitthvað annað að vera í boði líka, meðfram KMÍ. Við höfum mun takmarkaðra starfssvið en til dæmis sænska kvikmyndamiðstöðin. Við styrkjum bara fólk sem hefur atvinnu af þessu, en erum ekki menntastofnun.“

Sjá nánar hér: 87% fjármagns Kvikmyndasjóðs fer til karla – Fréttatíminn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR