Leitað eftir ungum stúlkum í aðalhlutverk

Anna Gunndís Guðmundsdóttir (Dunda) leikstýrir stuttmyndinni I Can't Be Seen Like This.
Anna Gunndís Guðmundsdóttir (Dunda) leikstýrir stuttmyndinni I Can’t Be Seen Like This.

Framleiðslufyrirtækið Kusk leitar nú að ungum leikkonum í aðalhlutverk fyrir stuttmyndina I Can’t Be Seen Like This eftir Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur en stefnt er á frumsýningu í New York í maí 2015. Konur eru í miklum meirihluta við gerð myndarinnar og eru allar helstu lykilstöður við framleiðslu hennar í höndum kvenna.

Anna Gunndís Guðmundsdóttir er á öðru ári í meistaranámi í kvikmyndagerð við New York University (NYU) og vinnur þessa dagana að undirbúningi stuttmyndarinnar I Can’t Be Seen Like This sem hún skrifar og leikstýrir.

Anna Gunndís lærði leiklist í Listaháskóla Íslands og sló eftirminnilega í gegn sem Hildur Líf í Áramótaskaupinu 2011 og lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni Frost þar sem hún var tilnefnd til Eddunnar fyrir besta leik í aðalhlutverki. Hún var svo fastráðin leikkona hjá Leikfélagi Akureyrar þegar hún ákvað að flytja til New York og hefja meistaranám í kvikmyndagerð. NYU er einn af fáum skólum sem leyfir nemendum sínum að gera kvikmynd í fullri lengd sem lokaverkefni og var það ein helsta ástæðan fyrir því að NYU varð fyrir valinu. Undirbúningur fyrir þá mynd hefst á næsta ári.

Myndin I Can’t be seen like this fjallar um tvær ungar systur sem ákveða að baka köku í tilefni afmælis pabba síns. Allt fer úr böndunum þegar hárið á þeirri yngri festist í hrærivélinni og helmingurinn tætist af. Atburðurinn afhjúpar bresti í sambandi systranna sem þær þurfa að horfast í augu við. Með hlutverk í myndinni fara Ólafur Darri Ólafsson og Einar Aðalsteinsson en stefnt er á tökur í janúar 2015.

Myndin er persónuleg en hún byggir að hluta til á reynslu leikstjórans frá því hún var yngri þegar hún missti hárið í hrærivélinni. „Það var oft mikill hasar á heimilinu enda vorum við sjö systkinin. Þessi mynd er óður til systra,  ég var yngst og þurfti snemma að læra að slá frá mér, annars stálu þær af mér bæði sælgæti og peningum,“ segir Anna Gunndís. „Ætli þær hafi ekki kennt mér að standa í lappirnar fyrir vikið. Að eiga systur er ómetanlegt og fallegt en stundum átakanlegt.“

I Can’t Be Seen Like This er fyrsta stuttmynd Önnu Gunndísar sem hún tekur upp á Íslandi og hefur hún fengið í lið með sér tökulið frá Íslandi og úr kvikmyndadeild NYU. Kvikmyndataka er í höndum Ines Gowland sem er kvikmyndagerðarkona frá Argentínu, framleiðandi er Sydney Buchan og um tónlistina sér Ariel Marx og allar stunda þær meistaranám við New York University.

Anna Gunndís leitar nú að ungum og efnilegum leikkonum á aldrinum 8-12 ára til að fara með aðalhlutverk í myndinni. Áhugasömum er bent á að senda 1-3 nýlegar ljósmyndir og eftirfarandi upplýsingar: fullt nafn, aldur og hæð, að auki símanúmer og nafn forráðamanns á netfangið casting@kusk.is. Prufurnar verða haldnar í desember.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á Facebook síðu myndarinnar:

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR