spot_img

Viðhorf | Hvernig getur niðurskurður orðið að aukningu?

Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.
Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.

Ræða Benedikts Erlingssonar á verðlaunahátíð í Stokkhólmi vakti athygli margra. Benedikt og Friðrik Þór Friðriksson voru að taka á móti kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir Hross í oss, fyrstir og einir Íslendinga sem slíkan heiður hafa hlotið. Benedikt óskaði í ræðu sinni eftir aðstoð gesta í samkvæminu á eftir, við að ræða við íslenska ráðamenn sem höfðu staðið fyrir 42% niðurskurði á Kvikmyndasjóði í ár.

Þessar tölur sem Benedikt nefndi hafa verið í umræðunni að undanförnu í tengslum við frumvarp til fjárlaga sem var lagt fram í byrjun október. Að því tilefni er rétt að árrétta nokkrar tölulegar staðreyndir: Kvikmyndasjóður var 1.020 m króna á síðasta ári. Í ár eru 625 m í sjóðnum, í staðinn fyrir 1.070 m króna sem áttu að vera í honum samkvæmt áætlun fyrri ríkisstjórnar. Þarna munar 445 m króna, eða sem nemur 41,6%.

Það tekur almennt um 5-7 ár að koma kvikmyndaverki í gegnum mylluna, frá hugmynd að frumsýningu. Það þarf því langtíma áætlunargerð og stöðugleika til að kvikmyndagerð á íslenskri tungu gangi upp.

Í viðtali við Ríkisútvarpið verðlaunakvöldið góða sagði Illugi Gunnarsson menningarmálaráðherra að stjórnvöld væru að bæta við til kvikmyndagerðar á þessu ári. Þar á ráðherra væntanlega við á fjárlögum næsta árs frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í sjálfu sér er það rétt. Það er gert ráð fyrir að kvikmyndasjóður hækki um 100 m á milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt gömlu samkomulagi frá 2011. Hinsvegar fylgdi ekki sögunni að ennþá vantar umtalsvert upp á þær 1.188 m sem sjóðurinn átti að vera 2015 samkvæmt áætlun síðustu ríkisstjórnar. Það vantar reyndar heilar 463 m króna eða sem nemur 39%.

Árið 2006 gerði kvikmyndagreinin samkomulag við þáverandi menningarmála- og fjármálaráðherra. Það var sameiginlegur skilningur aðila sem að samningnum stóðu að til að kvikmyndasjóður gæti staðið undir kröfum um framboð á kvikmynduðu efni á íslensku fyrir Íslendinga þyrfti sjóðurinn að vera 700 milljónir á þáverandi verðlagi. Sú upphæð samsvarar 1.186 milljónum í dag. Með tilkomu nýrrar áætlunar árið 2012 sem tók gildi í fjárlögum 2013 hyllti loksins í að markmiðum þessa samkomulags yrði náð.

Í desember í fyrra, þegar ljóst var að ráðherra færi fram með 42% niðurskurð á kvikmyndasjóði og vísaði í eldra samkomulag, þá óskuðu fagfélög í kvikmyndagerð eftir því formlega við ráðherra að samkomulag greinarinnar yrði endurskoðað og lögðu fram hugmyndir að nýju samkomulagi. Nú er liðið tæpt ár frá því að þessar tillögur voru lagðar fram og enn hefur erindinu ekki verið svarað.

Í sama ráðuneyti hafa verið til meðferðar reglugerðarbreytingar í kjölfar fyrrnefnds samkomulags í á þriðja ár, án þess að þær hafi náð í gegn, þrátt fyrir að koma beint við fjárhag kvikmyndaframleiðenda og að gert sé ráð fyrir þeim á fjárlögum síðustu 3 ára. Þannig hefur öðrum atriðum úr eldra samkomulaginu frá 2011 ekki verið komið á, þrátt fyrir að ráðherra vísi í að það samkomulag standi.

Hentistefna með hvað á að gilda úr hverju samkomulagi fyrir sig, allt eftir því hvernig vindar blása hverju sinni, segir sig sjálft að gangi ekki. Heildar niðurskurður menningarmálahluta fjárlaga yfirstandandi árs er hartnær 20% og er niðurskurður á kvikmyndasjóði lang stærsti einstaki liðurinn. Þetta er þrátt fyrir að fyrir löngu er búið að sýna fram á jákvæð efnahags- og menningarleg áhrif af fjárfestingu í kvikmyndum í gegnum kvikmyndasjóð.

Það átti því ekkert að koma ráðherra menningarmála sem staðið hefur í slíkum niðurskurði síns málaflokks á óvart að hann fái yfir sig kurteislega athugasemd frá einum fremsta kvikmyndaleikstjóra landsins.

Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson er formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og framkvæmdastjóri GunHil.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR