Ari Matthíasson: Hvernig væri að við hættum að leggja eyrun við svartagallsrausi?

Ari Matthíasson framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins.
Ari Matthíasson framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins.

Ari Matthíasson framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, tjáir sig á Fésbók um pistil Friðriks Erlingssonar:

Merkilegt hvað “Við erum ömurleg”-pistill á Klapptré hefur vakið mikinn fögnuð, en þar er verið að sanna að Íslendinga skorti siðmenningu og uppi sé hér algert getuleysi RÚV og kvikmyndaframleiðenda.

Þetta er á sama tíma og einn okkar leikstjóra hefur komið myndum sínum tvívegis í röð á toppinn í Bandaríkjunum, nokkuð sem engum skandinavískum leikstjóra öðrum hefur tekist. Þetta er á sama tíma og við eigum leikara sem er hægt og bítandi að festa sig í sessi í Hollywood og aðra sem hafa verið í slíkum myndum. Þetta er á sama tíma og nú stendur fyrir dyrum að framleiða stærstu alþjóðlegu sjónvarpsseríu sem Íslendingar hafa komið að og er sú skrifuð og framleidd af íslenskum.

Þetta gerist í kjölfar þess að hér hafa verið teknar upp margar erlendar stórmyndir þar sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa borið mikla ábyrgð og vinnu. Þetta er á sama tíma og í farvatninu er mjög stór Hollywood mynd sem er skrifuð, framleidd og leikstýrt af Íslendingum og mun koma með milljarða inn í íslenskt hagkerfi í formi erlendrar fjárfestingar.

Hvernig væri að við hættum að leggja eyrun við svartagallsrausi þeirra sem alltaf upplifa sólarlausa daga og færum að horfa stolt á það sem vel er gert og njóta sigranna um leið og lögð verða drög að þeim næstu?

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR