spot_img

Útvarpsstjóri segir óskert útvarpsgjald duga

rúv-magnús-geir-centerMagnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV, og Anna Bjarney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni, sendu starfsmönnum fyrirtækisins tölvupóst í dag, þar sem þau tiltaka tíu staðreyndir varðandi fjárhagslega stöðu RÚV.

Þetta kemur fram í Kjarnanum.

Í tölvupóstinum, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir: „Mikið hefur verið rætt um RÚV og fjárhag þess á undanförnum vikum. Í umræðunni hefur borið á því að sumir vilji horfa fram hjá aðalatriðum málsins og jafnvel drepa málinu á dreif. Af því tilefni viljum við draga hér saman fyrir ykkur þær tíu staðreyndir sem mikilvægastar eru í umræðu um fjárhagslega stöðu RÚV.“

Staðreyndirnar tíu sem eru teknar saman í tölvupóstinum eru neðangreindar:

1. Skuldavandi RÚV er ekki nýtilkominn, hann hefur orðið til á löngum tíma og er að mestu fólgin í áratugagömlum lífeyrisskuldbindingum.

2. Óháð úttekt PwC á stöðu fjármála í maí sl. sýndi að félagið er yfirskuldsett og getur ekki staðið undir greiðslum afborgana og vaxta af lánum.

3. Með sölu eigna s.s. lóðar og hugsanlega Útvarpshússins gerir stjórn RÚV ráð fyrir að skuldirnar verði greiddar niður að miklu leyti.

4. Frá 2007 hefur verið hagrætt mjög mikið í rekstri RÚV og starfsmönnum m.a. fækkað úr 340 í 235 sem er 30,9 % fækkun.

5. Á þessu ári hefur áfram verið hagrætt í starfseminni en með það að leiðarljósi að verja dagskrána sjálfa eins og kostur er.

6. Frá 1.janúar 2009 hefur ríkið árlega tekið til sín hluta af útvarpsgjaldinu.

7. 85% þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Capacent vilja að RÚV fái útvarpsgjaldið óskert og að stjórnvöld ráðstafi ekki hluta þess annað.

8. Útvarpsgjaldið er mjög svipað að krónutölu á hvern einstakling og þekkist annars staðar á Norðurlöndum (hjá NRK, DR, YLE og SWT/SWR) , þrátt fyrir smæð markaðarins. Það er lægra en á Bretlandseyjum (hjá BBC).

9. Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir dagskrá og bæta dreifikerfið, að því gefnu að RÚV fái gjaldið óskert.

10. Hvorki er því þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er, né veita sérstök fjárframlög til RÚV. Það nægir að hafa útvarpsgjaldið óbreytt.

Í niðurlagi tölvupóstsins segir svo: „Starfsmenn og landsmenn allir geta treyst því að stjórn og stjórnendur munu standa að rekstri Ríkisútvarpsins með ábyrgum hætti á næstu árum. Þannig tryggjum við best burði RÚV til að sinna sínu mikilvæga menningar-, öryggis- og lýðræðishlutverki.“

Sjá nánar hér: Útvarpsstjóri sendi starfsmönnum bréf um alvarlega stöðu RÚV | Kjarninn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR