Treystir Íslandsstofa ekki íslensku fagfólki?

inspired-by-icelandKvikmyndagerðarmenn undrast að Íslandsstofa hafi falið erlendum kvikmyndagerðarmönnum gerð kynningarmyndbands vegna herferðarinnar Inspired By Iceland. Myndbandið var unnið af Íslensku auglýsingastofunni, almannatengslaskrifstofunnni Brooklyn Brothers í London og Pulse Films. Leikstjórar og kvikmyndatökumenn á vegum Pulse Films gerðu myndbandið.

Á Vísi kemur fram að íslenskir kvikmyndagerðarmenn undri sig á því að ekki hafi verið leitað til fagfólks hérlendis:

„Það er mjög skrítið að Íslandsstofa treysti ekki íslensku fagfólki til að kynna Ísland,“ segir Stefanía Thors, varaformaður Félags kvikmyndagerðarmanna.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, tekur í sama streng.

„Það er alveg ótrúlega skrítið, sérstaklega í þessu árferði þegar íslenskir kvikmyndagerðarmenn berjast í bökkum, að leitað sé út fyrir landsteinana. Það er undarlegt að það sé þá ekki reynt að beina þessum viðskiptum til íslenskra kvikmyndagerðarmanna,“ segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir.

Daði Guðjónsson hjá Íslandsstofu segir tækifæri hafa falist í því að fá erlenda aðila í verkið.

„Glöggt er gestsaugað. Við vorum að fara í gang með þennan leyndarmálatúr og við vildum að þeir sem færu förina vissu ekki mikið um landið. Þetta er margverðlaunað leikstjórapar sem hefur unnið með heimsþekktum aðilum eins og 50 cents, Kate Perry og Nokia. Það má ekki gleyma að þetta er markaðsherferð á heimsvísu og það eru ákveðin tækifæri í kynningu að fá svona aðila til að vinna með okkur,“ segir Daði.

Fyrir gerð myndbandsins var efnt til samkeppni þar sem fólk átti að lýsa draumaferðalagi um Ísland. Var einn valinn til að fara í sína draumaferð. Að sögn Daða kostaði vinna erlendu aðilanna sex milljónir.

Á heimasíðu Íslandsstofu kemur fram að meðal yfirlýstra markmiða sé að tryggja markvisst kynningar- og markaðsstarf sem miðar að því að auka gjaldeyristekjur lista og skapandi greina. „Það skýtur skökku við að nota erlend fyrirtæki til þess að kynna Ísland,“ segir Stefanía. Undarlegt sé að ekki hafi verið leitað til fagfólks hérlendis til að gera myndbandið og kynna íslenskt fagfólk í leiðinni. „Er ekki alltaf verið að tala um að það vanti gjaldeyri inn í landið en þeir borga erlendum aðilum fyrir þessa vinnu.“

Sjá nánar hér: Vísir – „Skrítið að Íslandsstofa treysti ekki íslensku fagfólki“.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR