Northern Wave hátíðin haldin um helgina

Stemmning á Northern Wave.
Stemmning á Northern Wave.

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave fer fram í sjöunda sinn á Grundarfirði á Snæfellsnesi um næstu helgi. Boðið er uppá fjölbreytt úrval stuttmynda, fiskiveislu, tónleika, fyrirlestra og fleira.

northern wave festival poster 2014Hátíðin leggur áherslu á að finna nýjar raddir í kvikmyndagerð, kynslóð nýrra leikstjóra sem eru að fara nýjar leiðir með kvikmyndatungumálið.  Keppt er um verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina, besta íslenska tónlistarmyndbandið og bestu alþjóðlegu stuttmyndina.

Einnig er keppt um besta fiskiréttinn en efnt er til fiskiveislu á laugardagskvöldinu og þar keppast Grundfirðingar um atkvæði gesta um besta fiskiréttinn.

Isabelle Fauvel er heiðursgestur og situr í dómnefnd í ár en hún er útsendari fyrir Torino Film Lab og Jerusalem Film Lab og sér um að finna nýtt hæfileikafólk í stuttmyndageiranum.

Í ár verður lögð áhersla á að sýna það besta sem er að gerast í stuttmyndabransanum með fjölda verðlaunamynda. Í dómnefnd eru Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi og Isabelle Fauvel en áhorfendur kjósa í fyrsta sinn í ár um besta tónlistarmyndbandið.

Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri stýrir hátíðinni.

Tíðindamaður Klapptrés, Atli Sigurjónsson, verður viðstaddur hátíðina og mun gera henni skil í næstu viku.

Dögg Mósesdóttir stjórnandi hátíðarinnar.
Dögg Mósesdóttir stjórnandi hátíðarinnar.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR