Hækkanir til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands samkvæmt samkomulagi

kmí-logoSamkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands hækki um 87,6 m.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 2,8 m.kr. Hækkanirnar eru í samræmi við  samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015 sem mennta- og menningarmálaráðherra og fjármálaráðherra gerðu 8. desember 2011 við Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra.

Hundrað milljóna króna hækkun á framleiðslufé

Í fyrsta lagi er lögð til 100 m.kr. hækkun til Kvikmyndasjóðs og er hækkunin í samræmi við fyrrnefnt samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015.

  • Samkvæmt því hækkar framlag til framleiðslustyrkja árið 2015 úr 600 m.kr. í 700 m.kr., eða um 100 m.kr.,
  • Framlag til miðastyrkja verður óbreytt 30 m.kr.
  • 10 m.kr. framlag til endurnýjunar eldri kvikmynda helst einnig óbreytt.

Samkomulagið felur í sér að framlag í sjóðinn vegna þessara verkefna verði 515 m.kr. árið 2012, 570 m.kr. árið 2013, 640 m.kr. árið 2014 og 740 m.kr. árið 2015. Vegna hagræðingarkröfu ríkisstjórnarinnar var framlag til sjóðsins 624,7 m.kr. í fjárlögum 2014 en ekki 640 m.kr. eins og samkomulagið gerði ráð fyrir og þess vegna er framlag til sjóðsins nú 724,7 m.kr.

Hækkun til kvikmyndahátíða og kvikmyndahúsa samkvæmt samkomulagi

Í öðru lagi er lögð til 2 m.kr. hækkun til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í samræmi við samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015. Skv. samkomulaginu hækkar framlag vegna kvikmyndahátíða og kvikmyndahúsa sem leggja áherslu á listrænar kvikmyndir um 2 m.kr. og verður 21 m.kr.

Í samkomulaginu felst að framlag vegna þessa verkefnis verði 17 m.kr. árið 2012, 18 m.kr. árið 2013, 19 m.kr. árið 2014 og 21 m.kr. árið 2015.

Sérstakt framlag til kvikmyndahátíða fellt niður

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fella niður 10 m.kr. framlag til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands sem veitt var í fjárlögum ársins 2014 til kvikmyndahátíða.

Tekjur færðar frá Kvikmyndamiðstöð til Rannsóknamiðstöðvar vegna flutnings MEDIA

Í fjórða lagi eru millifærðar 4,4 m.kr. af Kvikmyndamiðstöð Íslands til Rannsóknamiðstöðvar Íslands vegna flutnings MEDÍA upplýsingaþjónustu á Íslandi til Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR