Tökur hafnar á „Hrútum“ Gríms Hákonarsonar

Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brand Grövlen.
Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brand Grövlen.

Tökur eru hafnar á kvikmynd Gríms Hákonarsonar Hrútar. Upptökur fara fram í Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið á Mýri og Bólstað en þeir bæir standa hlið við hlið, alveg syðst í Bárðardal að vestan.

Myndin segir af þeim bræðrum Gumma og Kidda sem eru sauðfjárbændur á sjötugsaldri. Þeir búa hlið við hlið í afskekktum dal og hrútar frá þeim þykja með þeim bestu á landinu. En þeir bræður hafa ekki talast við í fjóra áratugi. Dag einn greinist riðuveiki hjá Kidda og í kjölfarið neyðast þeir Gummi og Kiddi til þess að hefja samskipti á ný eftir 40 ár.

Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson fara með aðalhlutverkin.  Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara þau Charlotte Bøving, Þorleifur Einarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Gunnar Jónsson, Ingrid Jónsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Jörundur Ragnarsson, Þorsteinn Gunnar Bjarnason og Jónas Sen. Áætlað er að kvikmyndin verði frumsýnd haustið 2015. Facebook síða myndarinnar er hér.

Grímar Jónsson hjá Netop Films framleiðir.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR