spot_img

Aðstandendum “Vonarstrætis” hótað lögbanni

Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hera Hilmarsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með aðalhlutverkin í Vonarstræti eftir Baldvin Z.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hera Hilmarsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með aðalhlutverkin í Vonarstræti eftir Baldvin Z.

Vonarstræti eftir Baldvin Z verður frumsýnd á miðvikudaginn en almennar sýningar hefjast 16. maí. Myndin er innblásin af sönnum atburðum og fjallar um þrjá einstaklinga sem allir hafa eitthvað að fela.  Ein persónan, sem túlkuð er af Þorvaldi Davíð, er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og starfar hann í íslenskum banka í mikilli útrás.

Pressan skýrir frá því að myndin sé þegar byrjuð að valda titringi. Fyrir helgi fékk einn aðstandandi myndarinnar símtal frá þekktum manni í íslensku viðskiptalífi þar sem honum var hótað kæru fyrir ærumeiðingar og lögbanni á myndina en viðkomandi þóttist sjá að ein persónan væri byggð að hluta á sér.  Ingvar Þórðarson einn framleiðandi myndarinnar segir að hótanir hafi engin áhrif á hann.

Ennfremur segir í frétt Pressunnar:

Eins og tíðkast fyrir frumsýningar eru haldnar prufusýningar til að meta viðbrögð áhorfenda. Þeir sem hafa séð myndina eru sammála um það að í sumum tilfellum fari ekki á milli mála um hvaða aðila er verið að fjalla þó svo að raunveruleg nöfn séu ekki notuð.  Þá þykir myndin sýna útrásarvíkingana í ansi dökku ljósi og samkvæmt áreiðanlegum heimildum barst hótun um lögbann og lögsókn vegna ærumeiðinga fari myndin í almennar sýningar. Aðstandendur myndarinnar ætla ekki að láta það á sig fá og þá segir Ingvar að um ný kaflaskipti sé að ræða í íslenskri kvikmyndasögu með framleiðslu Vonarstrætis sem þykir ansi raunsönn og átakanleg. Ingvar segir:

Hótanir virka aldrei hvort eð er í lífinu. Menn mega reyna að setja lögbann en það er ekkert hlaupið að því. Þá þyrftu menn að reiða fram ansi háa tryggingu. Menn eiga kannski fyrir því. Það getur verið að margir kannist við sjálfan sig þarna en hótanir eru bara lélegar yfir höfuð.

Sjá nánar hér: Hótaði lögbanni á myndina Vonarstræti sem sýnir útrásarvíkinga í dökku ljósi: „Hótanir virka aldrei“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR