Samningaferlið um Bæjarbíó rangtúlkað segir Kvikmyndasafnið

Deilur standa um framtíð Bæjarbíós í Hafnarfirði.
Deilur standa um framtíð Bæjarbíós í Hafnarfirði.

Kvikmyndasafn Íslands segir í færslu á Facebook síðu sinni að safnið hafi „forðast yfirlýsingar og haldið sig til hlés í umræðu um málefni Bæjarbíós á opinberum vettvangi. Nú er svo komið að safnið telur sig tilneytt til að skýra frá sinni hlið í samningaferlinu við Hafnarfjarðarbæ.“

Yfirlýsing Kvikmyndasafnsins sem birtist á vef þess er svohljóðandi:

Kvikmyndasafn Íslands hefur staðið í samningaviðræðum við Hafnarfjarðarbæ svo mánuðum skiptir um áframhaldandi rekstur safnsins á Bæjarbíói. Loks náðist að lenda samningi 2. desember síðstliðinn þar sem báðir aðilar virtust sáttir. Sá samningur var þó aldrei lagður fyrir til samþykktar, heldur tók einhver aðili sig til og stytti samninginn og breytti ákvæðum hans í grundvallaratriðum og lagði hann svo fyrir bæjarráð.

Þessi breytta útgáfa samningsins var gerð án aðkomu eða samþykkis Kvikmyndasafnsins eða Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og má segja að þar hafi allri samningavinnu sem á undan var gengin verið fleygt fyrir róða. Bæjarráð samþykkti þennan samning að fulltrúum safnsins og ráðuneytisins fjarstöddum en í leiðinni var ákveðið að slíta samræðu við Kvikmyndasafnið og fara með málið beint til ráðuneytis mennta og menningarmála.

Þegar ráðuneytinu barst þessi nýi samningur var að sjálfsögðu neitað að skrifa undir hann. Ráðherra var hins vegar tilbúinn að skrifa undir þann samning sem unnið hefði verið að í góðri trú fram til þessa.

Þegar hér er komið sögu berst málið fjölmiðlum og látið er skína í að ráðherra hafi í hótunum og vilji færa safnið úr Bæjarbíói og að Kvikmyndasafn Íslands sé á einhvern hátt að halda viðburðum og menningu frá Bæjarbíói. Hvorugt er satt og því til stuðnings viljum við nú birta þann samning sem allt útlit er fyrir að hafi aldrei komið fyrir sjónir bæjarráðs Hafnarfjarðar.

SAMNINGURINN er hér.

Fylgiskjal 1: ÁÆTLUN UM ÞRÓUN SÝNINGAHALDS KVIKMYNDASAFNS ÍSLANDS Í BÆJARBÍÓI 2014 – 2017
Fylgiskjal 2: DRÖG AÐ ÁÆTLUN UM ENDURBÆTUR OG VIÐHALD BÆJARBÍÓS FYRIR TÍMABILIÐ 2014 – 2017
Fylgiskjal 3: ÁÆTLUN UM ÞRÓUN SÝNINGA Í ANDDYRI BÆJARBÍÓS FYRIR TÍMABILIÐ 2014 – 2017

Sjá nánar hér: Samningaferli um Bæjarbíó | Kvikmyndasafn Íslands.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR