spot_img

Allt að níu íslenskar bíómyndir sýndar í ár

Von er á allt að níu íslenskum bíómyndum á tjaldið á þessu ári. Tvær þeirra verða sýndar í vor en á haustmánuðum gætu birst allt að sjö á um þriggja mánaða tímabili. Fari svo verður þröngt á bíóþingi í haust en ekki er ólíklegt að einhverjum þeirra verði hnikað fram á næsta ár.

Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson í Vonarstræti eftir Baldvin Z.
Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson í Vonarstræti eftir Baldvin Z.

Vetur, vor og haust

Algengast er að íslenskar bíómyndir birtist frá jólum og fram í apríl annarsvegar og frá ágúst til október hinsvegar. Ástæðan er sú að utan þessara tímabila dregur nokkuð úr bíóaðsókn (utan nokkura sumarsmella frá Hollywood sem taka til sín lungan af gestum þess tímabils). Athyglisvert verður því að fylgjast með gengi Vonarstrætis Baldvins Z. sem frumsýnd verður þann 16. maí. Kynning á myndinni er hafin fyrir nokkru og ljóst að áhugi á henni er mikill.

Harry og Heimir í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar verður frumsýnd 16. apríl, eða rétt fyrir páska. Stikla myndarinnar hefur gengið nokkuð lengi í kvikmyndahúsum og gefur fyrirheit um mikið sprell. Að myndinni óséðri má teljast nokkuð líklegt að hún fái góða aðsókn enda framlínufólk og söguheimur vel þekkt fyrirbrigði.

Skriða í haust?

Allt að sjö myndir gætu birst í haust en frumsýningartími þeirra hefur ekki verið negldur utan þess að tilkynnt hefur verið að Afinn í leikstjórn Bjarna Hauks Þórssonar verði frumsýnd 26. september. Tökur eru nýhafnar á myndinni og því ljóst að planið er að láta hendur standa fram úr ermum.

Darri Ingólfsson og Hilmir Snær Guðnason í Borgríki II eftir Olaf de Fleur.
Darri Ingólfsson og Hilmir Snær Guðnason í Borgríki II eftir Olaf de Fleur.

Aðrar myndir sem um ræðir eru:

Borgríki 2: Blóð hraustra manna eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson; Fúsi eftir Dag Kára, París norðursins eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur.

Þá mun vera von á tveimur kvikmyndum eftir unga leikstjóra sem eru að þreyja frumraun sína í langmyndagerð, báðar myndirnar hafa verið nokkurn tíma í vinnslu og eru gerðar fyrir litlar upphæðir. Myndirnar eru annarsvegar Einn eftir Elvar Gunnarsson og Grafir og bein eftir Anton Sigurðsson.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR