spot_img

“Eyjafjallajökull” opnar franska kvikmyndahátíð

fronsk kvikmyndahátíð 2014Hin árlega Franska kvikmyndahátíð fer fram í Háskólabíói dagana 17.-30. janúar næstkomandi og verða sýndar 9 nýjar myndir. Opnunarmyndin heitir því skemmtilega nafni Eyjafjallajökull.

Eyjafjallajökull er rómantísk gamanmynd sem skartar leikurunum Valérie Bonneton og Danny Boon í aðalhlutverkum, en bæði eru miklar stjörnur í heimalandinu. Þau leika fráskilin hjón, sem ætla sér að vera viðstödd brúðkaup dóttur sinnar í apríl 2010. Þegar Eyjafjallajökull byrjar að gjósa eru góð ráð dýr. Flugi hjónanna er aflýst og þau velja þann kost að fara landleiðina á bílaleigubíl. Gallinn er hins vegar sá að hjónin fyrrverandi hatast innilega. Leiðin frá Frakklandi til Grikklands, þar sem brúðkaupið er haldið, er löng og á ferðalaginu getur bókstaflega allt gerst.

Meðal annarra mynda má nefna nýjustu mynd Romans Polanski, Venus í feldi sem tilnefnd var til Gullpámans á Cannes og kvikmyndina Ég um mig og mömmu eftir leiksjórarnn Guillaume Galliane. Sú hlaut Art Cinema verðlaunin og SACD verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Þá verða sýndar tvær teiknimyndir, Málverkið (Le tableau) og verðlaunamyndin Samþykktur til ættleiðingar (Coleur de peau – Miel).

Að hátíðinni standa Græna ljósið og Háskólabíó, Institut français, Alliance française í Reykjavík ásamt franska sendiráðinu.

Sjá nánar hér: Frönsk kvikmyndahátíð 2014 | Katalógur | Græna ljósið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR