spot_img

Scorsese veitir norrænum myndum heiðursverðlaun í Marrakesh

Martin Scorsese veitir heiðursverðlaun til norræna kvikmynda, Nicholas Winding Refn tók við verðlaununum fyrir hönd norrænna kvikmyndagerðarmanna. Í bakgrunni má m.a. sjá Kristínu Andreu Þórðardóttur framleiðanda (bláklædda).
Martin Scorsese veitir heiðursverðlaun til norræna kvikmynda, Nicholas Winding Refn tók við verðlaununum fyrir hönd norrænna kvikmyndagerðarmanna. Í bakgrunni má m.a. sjá Kristínu Andreu Þórðardóttur framleiðanda (bláklædda).

Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Marrakesh í Marokkó lauk um helgina. Á hátíðinni var kastljósinu sérstaklega beint að norrænum kvikmyndum gegnum tíðina og spannaði úrvalið allt frá þöglu myndum Victor Sjöström, gegnum verk Ingmars Bergman til nýrra kvikmynda. Íslenskar myndir á hátíðinni voru Borgríki, 101 Reykjavík og Nói albínói.

Leikstjórarnir Baltasar Kormákur, Dagur Kári og Valdís Óskarsdóttir, framleiðandinn Kristín Andrea Þórðardóttir og Laufey Guðjónsdóttir og Þór Tjörvi Þórsson frá Kvikmyndamiðstöð Íslands sóttu hátíðina fyrir Íslands hönd.

Sjálfur Martin Scorsese veitti heiðursverðlaunin til norrænna mynda og lofsöng norræna kvikmyndagerð í opnunarræðu sinni. Hann sagði það heiður að fá að kynna fókus til heiðurs norrænni kvikmyndagerð, sem hafi strax í árdaga kvikmyndanna sett mark sitt á miðilinn hvað frásagnaraðferðir og nýstárlegar hugmyndir varðar, þar sem áhersla hafi verið og er enn lögð á að kanna tilfinningar og mannsandann til hlítar. Scorsese nefndi t.a.m. Carl Theodor Dreyer og Victor Sjöström í þessu samhengi en tileinkaði svo Ingmari Bergman sérstaklega nokkur hrósyrði þar sem hann sagði Bergman vera einn af brautryðjendum kvikmyndagerðar sem hafði áhrif á heila kynslóð kvikmyndagerðarmanna.

Leikstjórarnir Martin Scorsese og Dagur Kári á góðri stund í Marrakesh.
Leikstjórarnir Martin Scorsese og Dagur Kári á góðri stund í Marrakesh.

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn tók við verðlaununum fyrir hönd norrænna kvikmyndagerðarmanna og sagði m.a. í þakkarræðu sinni að það væri kaldhæðnisleg staðreynd að Norðurlöndin samstæðu af fimm nágrannaþjóðum sem allar töluðu sitthvort tungumálið en á alþjóðlegum vettvangi væru þær sameinuð rödd.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR