Kristinn ósáttur með „The Fifth Estate“, Birgitta og Smári nokkuð sátt

Hollenska leikkonan Carice Van Houten sem Birgitta Jónsdóttir þingmaður í The Fifth Estate.
Hollenska leikkonan Carice Van Houten sem Birgitta Jónsdóttir þingmaður í The Fifth Estate.

Svarthöfði greinir frá því að Kristinn Hrafnsson hjá Wikileaks fari heldur háðulegum orðum um The Fifth Estate á Facebook síðu sinni. Kristinn segir m.a.:

„Kvikmyndin, sem auglýst er ranglega sem einhvers konar raunsaga WikiLeaks, fer sneypuför um heiminn og er að verða eitt mesta flopp Hollywood í talsverðan tíma. Aðeins 3000 ástralir nenntu á myndina í bíó, við opnun, þrátt fyrir augljósa tengingu við landið. Nú skilst mér að sýningar hefjist hér á landi um helgina og miðað við auglýsingar er gefið í skyn að þarna sé raunveruleikinn endurspeglaður. Svo er ekki og raunar langt í frá, miðað við handritið sem ég hef lesið. Fyrir nú utan að atriði í myndinni (sem byggð er á bókum manna í hefndarhug) eru skaðleg fyrir samtökin. Fólk hefur áttað sig á þessu og sleppir því að ómaka sig við að sjá hana. Gagnrýnendur er líka flestir á því að myndin sé léleg. Eiginlega veit ég ekki hvor skandallinn er stærri; að falsa söguna í mynd sem gerir sig út fyrir að vera trúverðug endurspeglun veruleikans, eða ná að gera leiðinlega mynd úr einstaklega spennandi kafla samtímasögunnar.“

Umsögn Kristins þarf ekki að koma á óvart enda gagnrýndi Wikileaks handrit myndarinnar harðlega á sínum tíma fyrir rangfærslur.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður, sem leikin er af Carice Van Houten í myndinni, virðist hinsvegar nokkuð sátt við myndina, en hafði áður viðrað efasemdir sínar. Sama má segja um Smára McCarthy, sem segir á Facebook síðu sinni:

„Mér var boðið á Guardian forsýningu myndarinnar, og var sjálfur viðstaddur meirihluta atburðanna sem koma fyrir í myndinni. Því get ég sagt að hún er skáldskapur að mörgu leyti og atburðirnir eru í kolrangri tímaröð, en fyrir utan síðustu setningu myndarinnar – sem er asnaleg – þá finnst mér þetta ekki ósanngjörn mynd eða slæm… bara svona lala allt í lagi Hollywood drama. Gerir satt að segja sennilega meira gott en slæmt, enda eru örugglega margir sem inspirerast af henni.“

Myndin hefur fengið slaka dóma og afar litla aðsókn á alþjóðlegum vettvangi. Hún var frumsýnd hér í síðustu viku og er í 8. sæti aðsóknarlista SMÁÍS eftir helgina með 413 gesti.

Sjá nánar hér: Kristinn Hrafnsson dissar The Fifth Estate í drasl | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR