17 innlendar þáttaraðir á Stöð 2 í vetur

Innlend dagskrá á Stöð 2 er umfangsmikil, en alls eru 17 þáttaraðir í gangi eða væntanlegar á vetrardagskrá stöðvarinnar, allt frá mannlífs-, spjall- og lífsstílsþáttum til stórra viðburða á borð við Ísland Got Talent. Er þá íþróttaefni ótalið en það á sér skjól á Stöð 2 Sport og Sport 2.

MANNLÍFS- OG VIÐTALSÞÆTTIR:

um-land-allt-kristján-márUm land allt: Annað árið í röð heldur Kristján Már Unnarsson áfram að ferðast um landið og þefa uppi áhugaverða viðmælendur og málefni. Alls verða 16 þættir á vetrardagskránni.

Lóa-Pind-Stóru-málinStóru málin: Lóa Pind Aldísardóttir rýnir í þjóðmálin og ræðir við til þess bært fólk; umfjöllunarefnin eru til dæmis skuldastaða heimilanna, atvinnumál, skattamál og fleira. 7 þættir eru í röðinni.

kollaKolla: Kolbrún Björnsdóttir stjórnar nýjum spjallþætti þar sem fjallað er um samfélagsleg mál; einelti, stjúpfjölskyldur, meðvirkni og sambönd svo eitthvað sé nefnt. Bent er á lausnir og hvaða verkfæri kunna að búa í töskunni til að takast á við áskoranir. Alls verða gerðir 8 þættir að þessu sinni.

sjálfstætt-fólkSjálfstætt fólk: Jón Ársæll Þórðarson heldur áfram að bregða upp svipmyndum af fólki í þessum vinsæla og langlífa þætti, sem alls átta sinnum hefur verið tilnefndur til Edduverðlauna og unnið þau fjórum sinnum. Samstarfsmaður hans er Steingrímur Þórðarson sem sér um upptökur og eftirvinnslu. Þetta er 13. þáttaröðin og verða gerðir 38 þættir á þessum vetri.

Ísland í dag: Fréttamagasínþáttur stöðvarinnar, á dagskrá alla virka daga.

óupplýst-lögreglumálÓupplýst lögreglumál: Helga Arnardóttir gerði þáttaröðina Mannshvörf sem sýnd var á Stöð 2 í fyrravetur og snýr nú aftur með þessa þáttaröð þar sem rifjuð verða upp mál sem ekki hefur tekist að leysa, á borð við bruna, mannslát, morð og rán. Helga ræðir við aðstandendur og fórnarlömb, lögregluþjóna og rannsakendur auk þess sem fréttamyndir eru nýttar til að varpa ljósi á þá atburði sem teknir verða til umfjöllunar. Alls verða 6 þættir í röðinni og hefjast þeir 24. nóvember.

MENNINGAR- OG LÍFSSTÍLSÞÆTTIR:

vala-matt---sælkeraferð-um-íslandSælkeraferð um Ísland: Vala Matt ferðast í kringum Ísland og heimsækir sælkera, veitingahúsafólk og sveitamenn og konur  sem bjóða uppá það allra besta og skemmtilegasta af íslenskum sælkeramat. Farið er í alla landshluta og falin leyndarmál skoðuð. Alls verða 8 þættir í þessari syrpu sem hefst fljótlega.

heimsóknHeimsókn: Sindri Sindrason heldur áfram að taka hús á fólki sem á falleg heimili. 16 þættir eru í syrpunni.

doktorDoktor: Sjónvarpskonan Telma Tómasson og læknirinn Teitur Guðmundsson gera helstu veikindum, kvillum og sjúkdómum sem hrjá nútímamanninn skil. 8 þættir í syrpunni sem hefst í nóvember.

hið-blómlega-búHið blómlega bú: Fyrrum Manhattan-kokkurinn Árni Ólafur Jónsson lætur draum sinn um líf í íslenskri sveitasælu rætast í nýrri þáttaröð sem framleidd er af Bryndísi Geirsdóttur og Guðna Páli Sæmundssyni, sem höfðu lengi gengið með þá hugmynd að gera þáttaröð þar sem áhorfandinn kynnist því hvernig hægt er að lifa á landinu, auk þess sem fjölbreytt matvælaframleiðsla landsins væri kynnt til sögunnar. Í þáttaröðinni notar Árni þá þekkingu sem hann hefur tileinkað sér í borgarlífinu og tvinnar það samanvið nýjan lærdóm, sígildar hefðir og hætti sveitalífsins til að byggja upp sitt blómlega bú. 6 þættir, hefjast í lok nóvember.

á-fullu-gaziÁ fullu gazi: Umsjónarmennirnir Finnur Thorlacius og Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir lofa hraða, krafti og slatta af húmor- semsagt þætti sem að kallar ekki allt ömmu sína. Þau munu láta gamminn geysa um götur landsins og teygja arma sína út um allt land í leit að því besta, áhugaverðasta og skemmtilegasta innan bílaheimsins. 8 þættir sem hefjast í nóvember.

SKEMMTIÞÆTTIR:

popp-og-kókPopp og kók: Unnur Eggertsdóttir kynnir það helsta á sviði kvikmynda og tónlistar. 12 þættir á vetrardagskrá.

logi-í-beinniLogi í beinni: Á föstudagskvöldum spjallar Logi Bergmann við skemmtilegt fólk í bland við tónlistaratriði og óvæntar uppákomur. Stöð 2 fullyrðir að Logi sé spjallþáttakóngur Íslands, um það verði ekki deilt! Klapptré hefur ekkert við þessa yfirlýsingu að athuga. 12 þættir eru í syrpunni sem Sagafilm framleiðir.

island-got-talentÍsland Got Talent: Hæfileikakeppnin Ísland Got Talent hefur göngu sína á Stöð 2 í desember. Keppnin verður með sama sniði og samskonar keppnir erlendis. Verkefnið er stórt í sniðum og til mikils að vinna en það atriði sem mun bera sigur úr býtum fær samtals 10 milljónir króna í verðlaun. Auðunn Blöndal stýrir sjóinu en dómnefndina skipa Bubbi Morthens, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Jón Jónsson. Rvk Studios framleiðir þættina.

spaugstofanSpaugstofan: Þetta er 22. starfsárið hjá Spaugstofunni og annar veturinn á Stöð 2 hjá hinum síspræku grínurum, sem hlutu Edduna nú síðast sem skemmtiþáttur ársins. Laddi kemur einnig sterkur inn í seríuna þennan veturinn og leysir Pálma af um skeið. 22 þættir að þessu sinni. Sagafilm framleiðir þættina.

LEIKIÐ EFNI:

ástríður-2Ástríður II: Önnur serían um Ástríði er nú að klárast en tvö ár eru síðan þessi gamansería fór fyrst í loftið. Í þessari syrpu er Ástríður orðin forstjóri skilanefndar fjárfestingabanka í borginni en undirmenn hennar eru fyrrum vinnufélagarnir Fanney, Sveinn Torfi og Bjarni. Fyrrum ástmaðurinn Davíð skýtur einnig upp kollinum, auk þess sem Björn blaðamaður og lögfræðingurinn Leifur koma talsvert við sögu. Með aðalhlutverk fara Ilmur Kristjánsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Björn Hlynur Haraldsson, Þóra Karítas Árnadóttir, Rúnar Freyr Gíslason og fleiri. Leikstjóri er Silja Hauksdóttir og framleiðandi er Sagafilm. 10 þættir í syrpunni.

BARNAEFNI:

sveppiAlgjör Sveppi: Sveppi býður hressa krakka velkomna inn í herbergið til sín sem er eitt stórt ævintýri út af fyrir sig. Ásamt vini sínum Villa vitringi er hann alltaf til í að bregða á leik, bæði sér og öðrum til skemmtunar. Á milli leikja býður Sveppi svo upp á fyrsta flokks barnaefni eins og Dóru landkönnuð, Diego, Latabæ, Strumpana og fleiri sem öll tala að sjálfsögðu íslensku.

 

 

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR