Algjör Sveppi á teikniborðið

 

algjör Sveppi og Gói bjargar málunum horizontal posterCAOZ Animation og Little Big Films framleiðandi kvikmyndanna um Sveppa og félaga gerðu nýverið með sér samstarfssamning um gerð teiknimynda sem byggðar verða á ævintýrum Sveppa.

Í fyrsta áfanga er áætlað að framleiða 26 þætti um þá Sveppa og félaga. Markmiðið er hins vegar að þeir verði mun fleiri þar sem algengt er að teiknimyndaseriur sem ná góðum vinsældum framleiði vel á annað hundrað þætti, sbr. Adventure Time og Simpsons.

Undirbúningur er vel á veg kominn og hefur verkefnið fengið jákvæð viðbrögð alls staðar. Stefnan er að kynna Sveppa og félaga á sjónvarpshátíðinni í Cannes síðar á þessu ári. Framleiðslan mun alfarið fara fram á Íslandi og áætlað er að hún hefjist haustið 2016 og taki um 8 mánuði.

120 leiknir sjónvarpsþættir og fjórar bíómyndir hafa verið framleiddar um ævintýri Sveppa síðan 2007. Hafa þættirnir og myndirnar notið mikilla vinsælda meðal barna sem og fullorðina. Hafa um 135.000 manns séð myndirnar í kvikmyndahúsum og fjöldi seldra mynd diska hleypur á tugum þúsunda sem setur efnið á stall með besta barnaefni sem komið hefur út á Íslandi.

Í dag er CAOZ að framleiða sjónvarpsþætti um Talking Tom í samstarfi við erlenda aðila. Um er að ræða fyrstu sjónvarpsseríu sem er frumsýnd á YouTube en var áður í dreifingu Disney. Að auki lauk CAOZ á siðasta ári framleiðslu á 52 teiknimyndaþáttum um Elias – Rescue Team Adventure sem var dreift af The Jim Henson Company í Hollywood. Ásamt að hafa framleitt teiknimyndina Hetjur Valhallar – Þór og teiknimyndirnar um Litlu lirfuna ljótu og Önnu og skapsveiflurnar sem hlotið hafa margvísleg verðlaun.

“Við Sveppi erum yfir okkur spenntir að sjá Algjöran Sveppa verða að teiknimyndafíguru sem krakkar út um allan heim fá tækifæri að kynnast. Við höfum fundið fyrir því að það er mikill velvilji gagnvart verkefninu og það er mikil eftirspurn eftir svona tegund af teiknimyndum hjá bæði innlendum sem erlendum sjónvarpsstöðvum”,

segir Bragi Þór Hinriksson forsvarsmaður Little Big Films sem hefur framleitt allar myndirnar um Algjöran Sveppa.

“Við hjá CAOZ eru ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni og teljum að það hafi mikla möguleika á að ná alþjóðlegum vinsældum og verða að sterku vörumerki með tilheyrandi sölu varnings, leikja og öðrum upplifunum. Við teljum einnig mikilvægt að þessi framleiðsla eigi sér stað á Íslandi, sem liður í að byggja upp frekar iðnað tengt framleiðslu teiknimynda á Íslandi. Það eru mikil tækifæri fólgin í því sem sýnir sig best á því hversu mikið Kanada og fleiri lönd hafa lagt í að byggja hann upp og gert að mikilvægum þætti í hagvexti Kanada”,

segir Arnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri CAOZ.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR