spot_img

Sænsk/íslenska myndin „Hemma“ vinnur áhorfendaverðlaunin í Busan

Úr sænsk/íslensku myndinni Hemma sem tekin var á hér á landi sumarið 2012.
Úr sænsk/íslensku myndinni Hemma sem tekin var á hér á landi sumarið 2012.

Sænsk/íslenska kvikmyndin Hemma hlaut í gær áhorfendaverðlaunin, Busan Bank Award, the Audience Choice, á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í S-Kóreu sem er ein stærsta og virtasta kvikmyndahátíðin í Asíu. Hátíðin telst til svokallaðra „A“ hátíða og var áhorfendafjöldi hátíðarinnar í ár 218.000 gestir.  Verðlaunaféð voru 20.000 bandaríkjadalir.

Leikstjóri myndarinnar er Maximilian Hult og framleiðendur myndarinnar eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granstöm fyrir sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions. Íslenskir meðframleiðendur eru Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson fyrir Kvikmyndafélagið Hughrif ehf. Framkvæmdastjórn var í höndum Tinnu Proppé.

Tökur á myndinni fóru fram á Eyrarbakka sumarið 2012 með íslensku tökuliði en stór hluti af aðstandendum myndarinnar eru Íslendingar.  Eftirvinnsla fór einnig öll fram hér á landi en myndin hlaut eftirvinnslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Valdís Óskarsdóttir og Sigurður Eyþórsson klipptu myndina, hljóðhönnun var í höndum Kjartans Kjartanssonar og Ingvars Lundberg hjá Bíóhljóð ehf., litgreining og samsetning var í umsjá Eggerts Baldvinsson hjá RGB Iceland ehf.

Myndin fer í almennar sýningar hér á landi snemma á næsta ári.

Hemma segir frá einfaranum Lou, vel gefinni ungri kona sem býr með móður sinni í stórborginni. Lou veit ekki betur en að þær eigi ekki aðra ættingja á lífi og er það því mikið áfall þegar hún fær fregnir af því að móðuramma hennar sé enn á lífi og að afi hennar sé nýlátinn. Gegn vilja móður sinnar ákveður Lou að fara í jarðarför afa síns og flytur til ömmu sinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR