Danska konan
Danska leikkonan Trine Dyrholm fer með hlutverk Ditte Jensen, fyrrverandi starfsmanns dönsku leyniþjónustunnar sem flytur til Íslands í von um rólegt líf. En Ditte getur ekki breytt því hver hún er og fyrr en varir hefur blokkin sem hún býr í umturnast í vígvöll í baráttunni um betri heim. Benedikt leikstýrir og skrifar einnig handrit þáttanna ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Þeir eru framleiddir af Marianne Slot og Carine Leblanc hjá franska framleiðslufyrirtækinu Slot Machine. Þættir hefjast á RÚV um næstu áramót.
Stick ’em Up er framhald af Verbúðarþáttunum
Vesturport mun kynna þáttaröðina sem ekki hefur enn fengið íslenskt heiti. Morgunblaðið hefur eftir Gísla Erni Garðarssyni, sem skrifar þættina í samstarfi við Björn Hlyn Haraldsson og Mikael Torfason, að serían hafi verið þróuð í prógrammi sem skipulagt er á vegum Series Mania. Verbúð var valin besta sjónvarpsþáttaröðin á Series Mania-hátíðinni árið 2021.
„Þegar ríkisstjórn Íslands leitast við að endurheimta nýlega einkavæddan fiskveiðikvóta, gerir Harpa Sigurðardóttir, eigandi útgerðarfélags í Reykjavík, sér grein fyrir því að eina leiðin til að tryggja kvóta hennar er að ná yfirráðum yfir banka,“ segir Francesco Capurro, stjórnandi Series Mania Forum, við Morgunblaðið, sem einnig getur þess að Nína Dögg Filippusdóttir fari með hlutverk Hörpu.
Í samtali við mbl.is segir Gísli Örn að stefnt sé að tökum á næsta ári og frumsýningu öðru voru megin við áramótin 2026/2027.
Masquerade, þáttaröð um dularfullt barnshvarf
Glassriver mun kynna þáttaröðina Masquerade en íslenskt heiti liggur ekki fyrir. Sagan hverfist um unga fréttakonu frá Bandaríkjunum sem rannsakar gamalt og óleyst hvarf fjögurra ára stúlku í litlu þorpi á Íslandi. Stúlkan var barnabarn valdamesta mannsins í þorpinu en hún hafði horfið 25 árum fyrr þegar fjölskyldan var í fríi á Flórída. Eftir því sem fréttakonan kafar dýpra í málið koma ýmis leyndarmál í ljós og svo virðist sem þeir sem báru ábyrgð á hvarfinu búi að líkindum enn í þorpinu.
Þættirnir eru hugarfóstur Andra Óttarssonar og Baldvin Z. Leikstjóri þeirra verður Baldvin Z en handrit skrifa auk Baldvins, Andri Óttarsson, Elísabet Hall, Urður Egilsdóttir, Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir og Elías Helgi Kofoed-Hansen.
Þættirnir eru gerðir fyrir Sjónvarp Símans. Morgunblaðið hefur eftir Andra Ómarssyni framkvæmdastjóra Glassriver að tökur fari fram í haust og að þættirnir verði sýndir á næsta ári í Sjónvarpi Símans. Meðal framleiðenda eru Marc Lorber, fyrrum yfirmaður hjá Lionsgate, og Nicholas Weinstock, sem er einn höfunda og framleiðanda Severance á Apple TV+.