Þrjár væntanlegar þáttaraðir kynntar á Series Mania

Að minnsta kosti þrjár íslenskar þáttaraðir verða kynntar á Series Mania sjónvarpshátíðinni sem fram fer dag­ana 21.-28. mars í Lille í Frakklandi. Þetta eru Danska konan eftir Benedikt Erlingsson, Stick 'em Up frá Vesturporti og Masquerade frá Glassriver.

Danska konan

Danska leikkonan Trine Dyrholm fer með hlutverk Ditte Jensen, fyrrverandi starfsmanns dönsku leyniþjónustunnar sem flytur til Íslands í von um rólegt líf. En Ditte getur ekki breytt því hver hún er og fyrr en varir hefur blokkin sem hún býr í umturnast í vígvöll í baráttunni um betri heim. Benedikt leikstýrir og skrifar einnig handrit þáttanna ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Þeir eru framleiddir af Marianne Slot og Carine Leblanc hjá franska framleiðslufyrirtækinu Slot Machine. Þættir hefjast á RÚV um næstu áramót.

Stick ’em Up er framhald af Verbúðarþáttunum

Vesturport mun kynna þáttaröðina sem ekki hefur enn fengið íslenskt heiti. Morgunblaðið hefur eftir Gísla Erni Garðars­syni, sem skrif­ar þætt­ina í sam­starfi við Björn Hlyn Har­alds­son og Mika­el Torfa­son, að serían hafi verið þróuð í pró­grammi sem skipu­lagt er á veg­um Series Mania. Ver­búð var val­in besta sjón­varpsþáttaröðin á Series Mania-hátíðinni árið 2021.

„Þegar rík­is­stjórn Íslands leit­ast við að end­ur­heimta ný­lega einka­vædd­an fisk­veiðikvóta, ger­ir Harpa Sig­urðardótt­ir, eig­andi út­gerðarfé­lags í Reykja­vík, sér grein fyr­ir því að eina leiðin til að tryggja kvóta henn­ar er að ná yf­ir­ráðum yfir banka,“ seg­ir Francesco Cap­urro, stjórn­andi Series Mania For­um, við Morgunblaðið, sem einnig getur þess að Nína Dögg Fil­ipp­us­dótt­ir fari með hlut­verk Hörpu.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Gísli Örn að stefnt sé að tök­um á næsta ári og frum­sýn­ingu öðru voru meg­in við ára­mót­in 2026/​2027.

Masquerade, þáttaröð um dularfullt barnshvarf

Glassriver mun kynna þáttaröðina Masqu­era­de en ís­lenskt heiti liggur ekki fyrir. Sag­an hverf­ist um unga frétta­konu frá Banda­ríkj­un­um sem rann­sak­ar gam­alt og óleyst hvarf fjög­urra ára stúlku í litlu þorpi á Íslandi. Stúlk­an var barna­barn valda­mesta manns­ins í þorp­inu en hún hafði horfið 25 árum fyrr þegar fjöl­skyld­an var í fríi á Flórída. Eft­ir því sem frétta­kon­an kaf­ar dýpra í málið koma ýmis leynd­ar­mál í ljós og svo virðist sem þeir sem báru ábyrgð á hvarf­inu búi að lík­ind­um enn í þorp­inu.

Þætt­irn­ir eru hug­ar­fóst­ur Andra Ótt­ars­son­ar og Bald­vin Z. Leik­stjóri þeirra verður Bald­vin Z en handrit skrifa auk Baldvins, Andri Ótt­ars­son, Elísa­bet Hall, Urður Eg­ils­dótt­ir, Kar­en Björg Eyfjörð Þor­steins­dótt­ir og Elías Helgi Kof­oed-Han­sen.

Þætt­irn­ir eru gerðir fyr­ir Sjón­varp Sím­ans. Morgunblaðið hefur eftir Andra Ómarssyni framkvæmdastjóra Glassriver að tök­ur fari fram í haust og að þætt­irn­ir verði sýnd­ir á næsta ári í Sjónvarpi Símans. Meðal framleiðenda eru Marc Lor­ber, fyrr­um yf­ir­maður hjá Li­ons­ga­te, og Nicholas Wein­stock, sem er einn höf­unda og fram­leiðanda Sever­ance á Apple TV+.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR