[Stikla] Heimildaþáttaröðin FANGAR BRETA hefst á RÚV 7. janúar

Heimildaþáttaröðin Fangar Breta er í fjórum hlutum og hefst á RÚV sunnudaginn 7. janúar. Sindri Freysson skrifar handrit, Snærós Sindradóttur er umsjónarmaður og bræðurnir Lárus og Árni Þór Jónssynir leikstýra verkinu.

Á stríðsárunum handtóku Bretar tæplega fimmtíu Íslendinga og lokuðu inni í Englandi mánuðum og árum saman án dóms eða réttlætis. Þáttaröðin Fangar Breta segir sögu þessa fólks.

Sögur hinna íslensku stríðsfanga Breta eru mannlegar og dramatískar, sögur einstaklinga sem drógust inn í atburði sem þeir réðu ekkert við, sögur fólks sem varð aldrei samt aftur, segir í tilkynningu frá Republik, framleiðanda þáttanna.

Í styrjöld gilda engar reglur er oft sagt og Íslendingarnir sem Bretar handtóku og lokuðu inni fengu óþyrmilega að kynnast þeim grimma sannleika. Bretar handtóku á fimmta tug Íslendinga hérlendis og á Englandi á árum síðari heimsstyrjaldar og lokuðu þá inni í breskum fangelsum og fangabúðum mánuðum og árum saman. Íslendingurinn sem lengst sætti innilokun losnaði ekki fyrr en eftir tæp fjögur ár. Bretar höfðu lofað í upphafi hernáms að virða fullveldi Íslands og skipta sér ekki af innanríkismálum þess, en þverbrutu þau loforð margsinnis í tilviki handteknu Íslendinganna.

Í fyrsta þætti segir frá örlögum sjö Vestfirðinga sem handteknir voru sumarið 1941 og gefið að sök að hafa falið ungan þýskan mann. Yngsti fanginn var sautján ára stúlka.

Í öðrum þætti segir frá örlögum þingmannsins Einars Olgeirssonar og samstarfsmanna hans á Þjóðviljanum. Þeir voru fluttir í fangelsi í London um sama leyti og loftárásir Þjóðverja á borgina voru hvað harðastar.

Í þriðja þætti segir frá örlögum skipverja á Arctic. Þeir sættu stórfelldum misþyrmingum og pyntingum og tveir þeirra létust í haldi Breta.

Í fjórða þætti segir frá örlögum tíu Íslendinga sem Bretar sökuðu um að vera njósnara Þjóðverja og settu í leynilegt fangelsi. Tveir þeirra gerðust gagnnjósnarar Breta.

Þáttaröðin er afkvæmi ítarlegrar sagnfræðilegrar rannsóknarvinnu og umfangsmikillar myndöflunar. Við gerð þáttana var einnig ráðist í að sviðsetja atburði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR