HÚSÓ: Sögur þurfa sársaukatón

Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson skrifa handritið að Húsó, nýjum leiknum þáttum á RÚV sem Arnór leikstýrir. Rætt var við þau á menningarvef RÚV.

Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson skrifa handritið að Húsó, nýjum leiknum þáttum á RÚV sem Arnór leikstýrir. Rætt var við þau á menningarvef RÚV.

Segir á vef RÚV:

Á sunnudagskvöldið var frumsýndur nýr leikinn sjónvarpsþáttur, Húsó, í leikstjórn Arnórs Pálma Arnarssonar sem skrifar handritið ásamt Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Sögusvið þáttanna er Hússtjórnarskólinn í Reykjavík og þættirnir fjalla um Heklu sem hefur verið inn og út af meðferðarstofnunum frá unglingsaldri. Þegar hún missir forræði yfir dóttur sinni gerir hún tilraun til að halda sig á beinu brautinni með því að skrá sig í skólann. Meðal leikenda eru Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir og Katla Þórudóttir Njálsdóttir.

Hugmyndavinnan hófst árið 2021 og þau heimsóttu skólann í kjölfarið til að skoða staðhætti og kynnast náminu. „Þegar við byrjuðum að skrifa í miðju kófinu þá fórum við í skoðunarferð um húsið,“ rifjar Arnór upp. „Ég man að við komum inn og þetta var eins og að koma í Disneyland. Þetta hús er alveg magnað. Það er alveg risastórt. Þá lærðum við allskonar og svo lásum við líka.“

Þegar kom svo að því að fara að ráðast í tökur, þurfti að hafa ýmislegt í huga. „Það er ekki hægt að taka þetta upp hvenær sem er, það er flóknara á meðan skólinn er í gangi,“ segir Jóhanna.

Aðstandendur skólans voru þó mjög spenntir fyrir þáttagerðinni og komu til móts við teymið. „Sérstaklega Marta María, nýi skólastjórinn, var mjög spennt yfir þessum þáttum. Maður vonar auðvitað að þetta verði skólanum til velgengni, þessi þáttaröð,“ bætir hún við.

Sögur þurfa sársaukatón til að standa

Þættirnir fjalla, sem fyrr segir, um lífið í skólanum og í þeim er bæði léttleiki og húmor en líka mikil dramatík. Á meðal umfjöllunarefna eru forræðisdeila, fíkn og einelti, svo eitthvað sé nefnt úr fyrsta þættinum.

Jóhanna segir að það geti verið flókið að fjalla um þungbær málefni en líka mikilvægt. „Ég er sannfærð um það sem höfundur að sögur verði að hafa sársaukatón í sér til að standa. Mannlegur harmur og sársauki eru undirstöður fyrir allar sögur,“ segir hún en bætir við: „Svo mega þær vera fyndnar, en ef þú ætlar að byggja hús þarftu að steypa góðan grunn, sem er ekki steyptur í mýri. Mér finnst harmur og mannlegur sársauki vera grunnur að sögu. Ég leita að þannig tónum.“ Arnór skýtur inn: „Hafandi sagt þetta… er líka gaman.“

Spuni, grín og bekkjarstemning á settinu

Í hugmyndavinnunni sköpuðu höfundarnir karaktera og senur og ákváðu í sameiningu hvaða þemu þau vildu vinna með. „Þegar maður byrjar að skrifa þá er svona tafla; mig langar að hafa mæðgnasamband. Það fannst okkur spennandi. Svo saga Heklu en líka saga konu sem Edda Björgvins leikur sem er að hætta að vinna,“ segir Arnór. Hún glími á þeim tímamótum við ýmsar spurningar. „Hver er ég ef ég hætti að vinna? Er ég ástfangin af manninum mínum? Það eru allskonar þemu þarna og það finnst mér gaman, að geta kroppað í allskonar.“

„Án þess að maður ætli að vera einhver bókmenntafræðingur þá vonar maður að allt tengist þetta í eina heild,“ bætir Jóhanna við.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR