Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar skorin niður um 13,5% í fjárlagafrumvarpi 2024

Í nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 eru áætluð framlög til Kvikmyndasjóðs 1.114,3 m.kr. Í fjárlögum ársins 2023 var framlagið 1.288,9 m.kr. Niðurskurðurinn nemur 174,6 milljónum króna eða um 13,5%.

Hér má skoða fréttir og umræðu um niðurskurðinn í fyrra.

Í tilkynningu frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu segir:

Breytingarnar skýrast annars vegar af því að tímabundin hækkun á framlagi til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði til framleiðslustyrkja fellur niður og hins vegar kröfu um aukið aðhald í ríkisfjármálum.

Á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins má lesa ýmiskonar útlistanir og yfirlit um framlög til kvikmyndamála á undanförnum árum sem og á næsta ári.

Þar segir ennfremur:

Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda. Á þingmálaskrá menningar- og viðskiptaráðherra fyrir þingveturinn 2023-2024 er að finna frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar. Með frumvarpinu verður komið á nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Með breytingunni verður Kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn enda er fyrirmynd breytinganna sótt þangað. Þá ráðgerir menningar- og viðskiptaráðherra að kynna nýjan starfslaunasjóð kvikmyndahöfunda sem hluta af endurskoðun á starfslaunakerfi listamanna, en unnið hefur verið að breytingum á kerfinu sem ráðgert er að innleiða á næstu árum. Ofantaldar aðgerðir eru hluti af aðgerðum kvikmyndastefnu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR