Tjörvi Þórsson ráðinn framkvæmdastjóri Sagafilm

Þór Tjörvi Þórsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sagafilm og hefur þegar hafið störf. Hann hefur undanfarin ár verið kvikmyndaframleiðandi hjá Netop Films og þar á undan var hann framleiðslustjóri í Kvikmyndamiðstöð um margra ára skeið.

Tjörvi kemur til Sagafilm með langa reynslu í kvikmyndaframleiðslu þar sem hann hefur á seinni árum unnið í Netop Films að framleiðslu á þeirra kvikmyndum, nú síðast kvikmyndinni Northern Comfort sem frumsýnd verður á Íslandi í haust. Tjörvi er með MSc próf í alþjóðaviðskiptum og MA í alþjóðasamskiptum.

Ráðningunni fylgja breytingar í hluthafahópi Sagafilm. Hilmar Sigurðsson, sem lætur af störfum sem framkvæmdastjori Sagafilm og Gunnar Karlsson hafa keypt aftur allt hlutafé í GunHil ehf. og munu þeir hverfa á ný til starfa í GunHil. Eftir að breytingarnar hafa komið fram að fullu munu KPR ehf. og Beta Nordic Studios vera hluthafar og eigendur Sagafilm.

Ragnar Agnarsson, stjórnarformaður Sagafilm segir af þessu tilefni að ,,um leið og við þökkum Hilmari fyrir hans störf þá bjóðum við Tjörva hjartanlega velkominn til starfa. Það eru spennandi tímar framundan við framleiðslu á leiknu og öðru dagskrárefni í Sagafilm. Það er mikill akkur í að fá Tjörva í lið með okkur.“

Tjörvi Þórsson segir það „sérstaklega ánægjulegt að koma inn og taka við öflugu framleiðslufyrirtæki í kvikmyndagreininni á Íslandi. Það er spennandi að takast á við stjórnun á sterku fyrirtæki með starfsemi og viðskipti víða um heim. Framleiðsla Sagafilm hefur farið ótrúlega víða um heiminn og við munum áfram koma með efni á markaðinn sem höfðar bæði til innlends markaðar og þess stóra erlenda.“

Sagafilm hefur á síðastliðnum árum meðal annars framleitt Edduverðlaunaþáttaraðirnar Ráðherrann og Systrabönd sem fengu mikið áhorf, auk kvikmyndarinnar Napóleonsskjölin sem nú er í sýningum og yfir 27.000 manns hafa séð.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR