spot_img

Laufey Guðjónsdóttir: Hlakka til að fylgjast áfram með íslenskri kvikmyndagerð blómstra

Laufey Guðjónsdóttir var sérstaklega heiðruð á Eddunni 2023 fyrir starf sitt sem forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands síðastliðin tuttugu ár.

Hlín Jóhannesdóttir, formaður stjórnar Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, kynnti Laufeyju á svið og sagði íslenska kvikmyndagerð eiga henni mikið að þakka.

Laufey sagði meðal annars:

Við vitum öll sem stöndum á kantinum hvað þarf mikið til að gera góða mynd og hvað mikil vinna er á bak við velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar. Það er bæði sköpunarkrafturinn sem þarf, það er fagmennskan, það er ótrúleg þrautseigja og þor og síðan til að fíra í þessu öllu saman er mjög mikilvægt að treysta á stuðning stjórnvalda sem hafa svo sannarlega staðið við bak greinarinnar. Auðvitað viljum við öll mikið meira og öðruvísi og það allt, en það er frábært að eiga þennan trausta stuðning, án þess væri þetta ekki hægt. Það er líka sérstaklega ánægjulegt hvað Kvikmyndastefnan hefur styrkt stoðirnar með kvikmyndanámi, kvikmyndalæsi og svo framvegis.

Sjálf vil ég þakka samstarfsfólki mínu gegnum tíðina fyrir skemmtilega tíma. Mér finnst auðvitað leiðinlegt að hafa oft þurft að segja nei, það verður bara að segjast eins og er. Ég hlakka til að breyta um sjónarhorn og fylgjast áfram með íslenskri kvikmyndagerð blómstra. Þakka ykkur öllum fyrir samstarfið og ég óska líka eftirmanni mínum alls hins besta. Gangi ykkur vel.

Hér má horfa á Edduverðlaunin í heild sinni. Kaflinn með Laufeyju hefst á 01:29:09.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR