Lestin um VILLIBRÁÐ: Ekki fara með makanum

„Ég vil að lokum grátbiðja ykkur um að fara á myndina með einhverjum sem ykkur þykir afskaplega skemmtilegur og vara ykkur við því að taka makann með ef sambandið er ekki á góðum stað,“ segir Guðrún Elsa Bragadóttir meðal annars í Lestinni á Rás 1 um Villibráð Elsu Maríu Jakobsdóttur.

Guðrún skrifar:

Pistill dagsins fjallar um Villibráð eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur sem var frumsýnd fyrr í mánuðinum, en myndin er fyrsta mynd leikstjórans í fullri lengd. Villibráð er gerð eftir ítalskri mynd frá 2016, Perfetti Sconosciuti, sem gefa mætti íslenska titilinn Við þekkjumst ekkert, sem hefur sett heimsmet sem sú mynd kvikmyndasögunnar sem oftast hefur verið endurgerð. Mér skilst af viðtölum að það sé í raun fyrst og fremst grunnforsenda ítölsku myndarinnar sem verður upplagið að Villibráð, sem sækir til hennar mikilvægasta þátt frásagnarinnar, sjálfa kveikjuna að dramatíkinni, en myndirnar fjalla báðar um paramatarboð þar sem ákvörðun er tekin um að símar viðstaddra séu settir á borðið og að það sem eftir lifi kvölds séu öll skilaboð sem berast lesin upphátt og símtölum svarað á „speaker,“ svo allir viðstaddir heyri.

Ég skil mætavel að þessi upphafspunktur heilli bæði áhorfendur og kvikmyndagerðarfólk. Umgjörðin minnir á svolítið á klassíska morðgátu eftir Agöthu Christie; við höfum lítinn hóp fólks í afmörkuðu rými, en í stað þess að komast að því hver framdi glæpinn bíðum við þess í ofvæni að komast að því hvaða „glæpir“ eða leyndarmál komi upp á yfirborðið, hverjir matarboðsgestanna lúri á verstu leyndarmálunum og hvernig sögupersónur muni bregðast við sannleikanum. Og áhorfendur vita auðvitað að óþægileg leyndarmál eiga eftir líta dagsins ljós; þær væntingar eru skapaðar um leið og leikurinn byrjar, við þurfum bara að halla okkur aftur og njóta eyðileggingarinnar sem persónuleg sambönd aðalpersónanna eiga í vændum.

Elsa María skrifar handritið að íslensku aðlöguninni ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni, sem hlustendur þekkja eflaust helst sem leikskáld. Sögusviðið er Vesturbærinn í Reykjavík og þegar myndin hefst er matarboð í þann mun að hefjast hjá hjónunum Evu og Rúnari. Eva og Rúnar hafa, líkt og heimili þeirra, yfirbragð fullkomnunar og því kemur kannski ekki á óvart að þau skuli bæði vinna við það að laga vandamál annarra; hún er sálfræðingur og hann lýtalæknir. Eitt af öðru tínast inn tvö önnur pör og stakur vinur, sem stingur eðlilega í stúf í matarboði sem þessu. Fyrst mæta framakonan Hildur, sem rekur barnamatsfyrirtækið Mömmugull, ásamt Leifi, heimavinnandi húsföðurnum sem sér um ungu börnin þeirra þrjú, síðan koma bróðir Rúnars, sjálfstætt starfandi ónytjungurinn Þorsteinn, og kærastan hans Björg, afródanskennari og kvótabarn sem er um það bil kynslóð yngri en restin af hópnum. Svo rekur fótboltaþjálfarinn Pétur auðvitað lestina, breytir sléttri tölu í odda, og þá getur hópurinn sest til borðs og við spennt beltin; þetta ógæfusama kvöld er að hefjast fyrir alvöru.

Ég mun auðvitað ekki spilla myndinni fyrir hlustendum með frekari upplýsingum um söguþráð og persónur, enda skiptir í mínum huga sérstaklega miklu máli að vita sem minnst um það fyrirfram í tilfelli Villibráðar. Áhorfsánægjan felst í að lesa í tengslin milli sögupersóna, sjá þau bregðast hvert við öðru, festa fingur á augnablikum þar sem spenna brýst fram. Í þessum skilningi er myndin mjög hefðbundið melódrama — og ég veit að orðið melódrama er ekki alltaf notað á jákvæðan hátt, en þar liggur að því er ég held ansi stór misskilningur á hvað býr að baki melódrama. Melódramatískar kvikmyndir eru nefnilega sérlega ánægjulegar áhorfs, þær virkja áhorfendur sem túlkendur dramatískra aðstæðna og mannlegra samskipta, taka kunnuglegar upplifanir og skerpa á þeim, framreiða þær með aðeins meiri tilþrifum en við eigum að venjast í hversdagslegu lífi okkar.

Það er einmitt margt kunnuglegt í þessari ágætu mynd, óvenjulega margt, ef við veltum henni fyrir okkur í samhengi íslenskrar kvikmyndagerðar. Það er hressandi að sjá kvikmynd segja sögu sem gerist augljóslega í vesturbæ Reykjavíkur í nýliðinni fortíð, en þeim upplýsingum er ekki bara miðlað til áhorfenda með kvikmyndatöku heldur líka handriti sem hikar til dæmis ekki við að nýta sér þá merkingarauka sem fótboltalið hverfisins, KR, hefur í hugum Íslendinga. Maður fær ekki á tilfinninguna að myndin sé hönnuð til að vekja athygli á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, að hún standi og falli með því að erlendir áhorfendur taki henni fagnandi, en það er auðvitað áhætta fólgin í slíkri afstöðu fyrir kvikmyndagerðarfólk frá landi sem telur rétt rúmlega 370 þúsund íbúa. Leikstjóri tekur líka vissa áhættu þegar hún fléttar skoti af eldgosinu við Fagradalsfjall inn í frásögnina, en gosið hefst einmitt meðan á matarboðinu örlagaríka stendur og verður að sjónrænni hliðstæðu þess sem á sér stað inni í stofunni í Vesturbænum; við sjáum kvikuna brjótast upp á yfirborðið rétt eins og leyndarmál matarboðsgesta. Þessi dýnamík verður allt að því ljóðræn þegar sóðaleg smáskilaboð birtast á skjánum á síma sem aðalpersónur hafa hópast í kringum til að taka af sér sjálfu með gosið í bakgrunn. Stílbrögð sem þessi eru áhættusöm; þetta hefði svo auðveldlega getað virkað áreynslukennt eða truflandi, eins og leikstjórinn hefði bara viljað nýta óvænt tækifæri til að nota ótrúlega falleg skot í myndinni sinni. Elsu Maríu tekst hins vegar að laga eldgosið, í bókstaflegum og metafórískum skilningi, að frásögninni með fumlausum hætti, sem er ansi vel gert. Og í samhengi við þessa umræðu um Vesturbæinn árið 2021, þá má líka benda á að það hentar viðfangsefninu fullkomlega að staðsetja frásögnina svo kirfilega í tíma og rými þegar við höfum í huga leikmunina sem knýja frásögnina áfram; snjallsímana sem hvíla á borðstofuborðinu, sakleysislegir að sjá. Eftir áratug eða tvo vekja þeir kannski upp góðlátlegan hlátur hjá eigendum fullkomnari tækja og eftir enn fleiri áratugi nostalgíu hjá áhorfendum sem muna eftir einfaldari tímum…

Tveir þættir þurfa nauðsynlega að virka svo að mynd eins og Villibráð sé vel heppnuð; handrit og leikur. Það er samspil þessara þátta sem skapar þá stemningu að hér séu gamlir vinir að hittast í þúsundasta skiptið, að þau lumi á enn fleiri vandræðalegum sögum en þeim sem þau láta flakka í sjálfu boðinu, og að blendnar tilfinningar liti iðulega samskipti þeirra. Spennan liggur í handritinu, sem er verulega vel upp byggt, grípandi frá upphafi og hélt mér allan tímann. Fléttan verður þó aldrei yfirdrifin og það sama má segja um leik aðalleikaranna sjö, sem tekst að miðla nánd, gremju og húmor með áhrifaríkum en alltaf sannfærandi hætti. Hilmir Snær Guðnason, Gísli Örn Garðarsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Aníta Briem hafa aldrei verið betri, að mínu mati, og það er í rauninni bara eins gott. Ég gæti ímyndað mér að mynd sem þessi sé draumur leikarans, afbragðs tækifæri til að láta ljós sitt skína, en álagið hlýtur líka að vera þeim mun meira og enn katastrófískara að mistakast.

Ég vil að lokum grátbiðja ykkur um að fara á myndina með einhverjum sem ykkur þykir afskaplega skemmtilegur og vara ykkur við því að taka makann með ef sambandið er ekki á góðum stað. Tja, nema þið viljið flýta fyrir endalokunum það er að segja. Ég tók með mér eina af mínum allra bestu, vinkonu sem var til í að skiptast á augngotum og taka andköf með mér, þar sem við hölluðum okkur aftur í risavöxnum sætum lúxussalarins og dreyptum á kokteil í dós. Eftir myndina gerðum við svo vísindalegan samanburð á aðalpersónum myndarinnar og fyrrverandi kærustum okkar og vinkvenna okkar. Þetta er kannski ekki eina leiðin til að horfa á Villibráð, en líklega sú besta.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR