spot_img

Aðsókn eykst hjá Bíó Paradís

Bíó Paradís kom vel undan nýliðnu ári og framundan eru margvíslegir viðburðir. Í stuttri skýrslu er fjallað um stöðuna hjá bíóinu sem sett var á fót af fagfélögum kvikmyndagerðarfólks í landinu.

Skýrslan er svohljóðandi:

Bíó Paradís lauk 12. starfsári sínu árið 2022 og heldur áfram að vera eina menningarhús sinnar tegundar á Íslandi. Þrátt fyrir COVID og ýmsar vendingar á kvikmyndamarkaði hefur Bíó Paradís sótt ævintýralega í sig veðrið og hefur nú skilað hagnaði tvö ár í röð sem rennur lögum samkvæmt beint í rekstur hússins. Þetta svigrúm hefur verið nýtt til að greiða niður skuldastöðu félagsins og fjármagna ýmsar endurbætur á húsinu, svo sem stórbætt aðgengi fatlaðra. Nú eru allir salir hússins aðgengilegir hreyfihömluðum og fleiri endurbætur eru í farvatninu, gestum hússins til enn betri upplifunar og yndisauka.

Bíó Paradís er sjálfseignarstofnun í eigu fagfélaga kvikmyndagerðarfólks sem starfar með það að markmiði að efla og styðja kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi.

Bíó Paradís státar árlega af einstöku úrvali alþjóðlegra og evrópskra verðlaunakvikmynda sem eru nú reglulega teknar til sýninga í öðrum kvikmyndahúsum og má segja að Bíó Paradís hafi gjörbylt framboði á kvikmyndamarkaði á Íslandi.

Viðburðir vegna Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Árið 2022 var engin undantekning, en almenningur varð þess svo sannarlega var á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem haldin voru í Hörpu í ár, hversu mikilvægur hornsteinn kvikmyndamenningar Bíó Paradís er á Íslandi. Bíóið bauð uppá allar kvikmyndirnar sem tilnefndar voru, auk fjölda viðburða tengda verðlaununum og verðlaunahöfunum. Gaman var að sjá og heyra á gestum verðlaunanna hversu vel hefur tekist upp að halda úti listrænu kvikmyndahúsi á Íslandi og undraverðum árangri hússins á þeim rúma áratug sem það hefur starfað og blés það aðstandendum mikinn byr í brjóst að fá hvatningarkveðjur kvikmyndaiðnaðarins á verðlaununum.

Aðsóknarsprengja síðasta haust

Þrátt fyrir hæga byrjun á árinu vegna veirunnar, varð algjör aðsóknarsprengja á flesta viðburði og hátíðir í húsinu um haustið, fjöldi gesta jókst á alla fasta viðburði Bíó Paradís svo sem Föstudagspartísýningar, Svarta sunnudaga og skólasýningarnar sem eru í boði frítt fyrir alla grunn- og framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð var svo vel tekið að bæta þurfti við sýningum á fjölda viðburða, og boðið var uppá lifandi talsetningu í fyrsta sinn með þremur leikurum á kvikmyndinni „Horfin á Hrekkjavöku“ og sérstakri sýningu á Apastjörnunni fyrir einhverfa.

Aðsókn á alþjóðlegar verðlauna kvikmyndir Bíó Paradísar hefur sjaldan verið jafn öflug, en þar stóð umtalaðasta mynd ársins Sorgarþríhyrningurinn uppúr sem ein vinsælasta kvikmynd landsins margar vikur í röð og er ekkert lát á aðsókninni á þessa margverðlaunuðu mynd.

Miðvikudagsbíó og aðrir viðburðir

Bíó Paradís hélt áfram að brjóta niður múra og nema nýjar lendur í útbreiðslu kvikmyndamenningar á Íslandi. Nýjasti fasti liðurinn í starfsemi hússins er Miðvikudagsbíó í hverri viku fyrir alla þá sem komast heldur í bíó í björtu vegna vinnu eða aðstæðna. Sérstaklega er sjónum beint að eldri borgurum, skjólstæðingum hjúkrunarheimila eða annarra vistheimila, starfstéttum með óvenjulega vinnutíma og ýmsa sem sem búa við með einum eða öðrum hætti við félagslega einangrun. Boðið er uppá kaffi og kleinur eftir sýningar og stefnt er að því að bjóða uppá áhugavert spjall og fyrirlestra í tengslum við ákveðnar sýningar í þessum fasta dagskrálið sem tekið hefur verið fagnandi.

Rómönsk-amerísk kvikmyndahátíð var haldin í fyrsta skipti í samstarfi við sex sendiráð frá mið- og suður ameríku. Boðið var uppá sýningar á einni kvikmynd frá hverju sex landanna, auk tónlistar, matar, dans og fleiri uppákoma í tengslum við hverja mynd. Frítt var inn og allir velkomnir og má segja að það hafi verið fullt út úr dyrum á hvern viðburð á hátíðinni.

Boðið var uppá þá nýbreytni að sýna nýja indverska kvikmynd á Tamil tungumáli í nóvember og seldist hratt upp á þann viðburð. Stefnum við nú að því að frumsýna reglulega kvikmyndir frá Bollywood en töluvert er um fólk af indversku bergi brotnu á Íslandi sem þyrstir í reglulegar sýningar á sínum ríkulega kvikmyndaarfi.

Aðrar nýjungar á árinu voru Happy Hour þriðjudagar en þá gefst útsjónarsömum bíóunnendum færi á að versla miða og veitingar á sérstöku happy hour verði og úrval plötusnúða sjá um stemningu á barnum eftir sýningar.

Auk þess héldu aðrir fastir kvikmyndaviðburðir áfram sigurgöngu sinni í Bíó Paradís, alþjóðlega kvikmyndahátíðin Stockfish var haldin í áttunda sinn í byrjun árs. Franska kvikmyndahátíðin var haldin í tuttugasta og annað skiptið í Bíó Paradís sem og Þýskir kvikmyndadagar voru haldnir í þrettánda sinn. Feminísk kvikmyndahátíð fagnaði sínu þriðja starfsári og pólskar nýjar kvikmyndir sneru aftur með hvelli, og í þetta sinn með úrvali fyrir alla fjölskylduna á pólsku.

Reglulegar sýningar Kvikmyndasafns Íslands í Bíó Paradís sóttu heldur betur í sig veðrið og boðið var uppá forvitnilegra úrval en nokkru sinni fyrr á þessum perlum kvikmyndasögunnar sem sýndar eru á lækkuðu miðaverði í hverjum mánuði.

Gjafakort og – bréf í Bíó Paradís tóku algjört hástökk á árinu og hafa aldrei selst eins vel frá upphafi, ljóst er að fólk sér fyrir sér margar úrvalsstundir í Paradís á næsta ári. Og ekki að ástæðulausu. Framundan eru enn frekari endurbætur í Paradís þar sem tónmöskvi verður lagður í alla sali hússins, en það gerir fólki með heyrnartæki kleift að heyra sérstaklega vel, og haldnar verða sérstakar bíósýningar með sjónlýsingum fyrir blinda.

Áhöld eru um að halda svo sérstakar karaoke sýningar fyrir söngþyrsta og bæta við öðrum bar á efri pallinum til að anna mikilli eftirspurn með fleiri sölustöðvum miða og veitinga í húsinu. Bíó Paradís heldur svo áfram að vera eina kvikmyndahús landsins þar sem allar kvikmyndir eru jafnframt sýndar með enskum texta til að hámarka aðgengi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR