VILLIBRÁÐ: Föstudagskvöld og stuð í mánuð

Kvikmyndin Villibráð verður frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins á þrettándanum.

Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri og Hilmar Guðjónsson, einn af aðalleikurunum, ræddu um myndina í Morgunútvarpinu á Rás 2:

Kvikmyndin er byggð á ítölsku myndinni Perfetti sconosciuti sem hefur verið endurgerð rúmlega tuttugu sinnum. „Þetta er mest endurgerða mynd í heimi,“ segir Elsa María Jakobsdóttir, leikstjóri myndarinnar. Hún skrifaði einnig handritið ásamt leikskáldinu Tyrfingi Tyrfingssyni. „Okkar er kannski dálítið meira byggð á frekar en endurgerð.“

Eldfimur símaleikur setur allt á hliðina
Grunnhugmyndin, sem allar þessar kvikmyndir hverfast um, er eldfimur símaleikur. Vinahópur hittist í matarboði og allir leggja síma sína á mitt borðið. Öll skilaboð sem þeim berast um kvöldið eru lesin upp og öllum símtölum svarað upphátt. „Og þetta fer bara mjög illa,“ segir Elsa María.

„Sjö vinir hittast í matarboði í Vesturbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið í Skerjafirðinum. Þetta eru gamlir vinir og það átti að vera þarna eitt par til viðbótar sem kemur ekki vegna þess að konan hafði verið með krökkunum í iPadinum hans að horfa á Gurru grís og bing, það komu skilaboð, framhjáhald og þau koma ekki í matarboðið,“ útskýrir Elsa María.

„Þetta hristir aðeins upp í samkomunni og gestgjafinn, sem Nína Dögg leikur, grunar sinn mann um græsku og egnir þessum hópi út í þennan leik sem hún skáldar á staðnum, sem er að allir leggi símana á borðið og lesi upp öll skilaboð og setji öll símtöl á speaker.“

Ýmislegt óþægilegt kemur upp á yfirborðið sem vinahópurinn þarf að takast á við þetta örlagaríka kvöld. Elsa María segir þennan símaleik vera algjört tryllitæki sem skapi ýmsar óvæntar aðstæður. „Símarnir eru komnir á borðið og það er hægt að láta þá hringja og dinga endalaust og það bara velta inn sitjúasjónir sem þú getur haft eins skelfilegar og þú vilt,“ segir hún. „Sem við gerðum. Við skrúfuðum þetta alveg frekar mikið í botn. Maður fer svona alveg dálítið á sætisbrúnina, þetta er frekar óbærilegt.“

Gera grín að sjálfum sér
Einvalalið leikara leikur vinahópinn í Villibráð. Nína Dögg Filippusdóttir og Hilmir Snær Guðnason leika gestgjafana, Hilmar Guðjónsson og Aníta Briem leika hjón, Björn Hlynur Haraldsson leikur matargest sem tekur nýju kærustuna sína með og Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikur hana. Gísli Örn Garðarsson er svo einhleypingurinn í hópnum.

„Ég leik að einhverju leyti sjálfan mig,“ segir Hilmar Guðjónsson. „Ég leik hann Leif, sem býr í Vesturbænum og heldur með KR og er leikari og er með börn á leikskólanum Laufásborg í Hjallastefnunni og ég bara tikka í öll þessi box.“ Hann segir að vísu að persónan sem hann leikur hafi ýmsa skapgerðarbresti og sýni af sér hátterni sem hann hafi ekki í hyggju að tileinka sér.

Margir áhorfendur kannast eflaust við þau djúpu tengsl sem persónurnar eiga við síma sína. „Fólk berskjaldar sig algjörlega með símana á lofti,“ segir Hilmar. „Við erum að gera grín að okkur og að okkur öllum og það var svolítið það sem okkur langaði að gera. Að opna okkur með þetta og að hlæja að okkur.“

Voru í sama matarboðinu í heilan mánuð
Tökur stóðu yfir í rúman mánuð í fyrra, í miðjum heimsfaraldri, sem setti strik í reikninginn. „Ég held að allir hljóðmenn á landinu hafi komið að gerð þessarar myndar. Mikið um smit í hljóðdeild og talsvert í kvikmyndatökudeild,“ segir Elsa María. Blessunarlega slapp leikhópurinn því erfitt hefði verið að fá staðgengla fyrir þau ef til kastanna kæmi. „Það hefði verið erfitt án ykkar,“ segir hún.

Leikmynd var byggð í vöruskemmu í Reykjavík og þar hittist hópurinn daglega frá nóvember til desember í fyrra. „Við sáum aldrei dagsljós af því að þetta var á þeim árstíma, svo vorum við inni á þessu föstudagskvöldi, það var bara föstudagskvöld og stuð í mánuð,“ segir Elsa. „Það er náttúrlega skrítið að vera í sama matarboðinu sem gerist yfir einhverja örfáa klukkutíma á einu kvöldi í mánuð og þau alltaf í sama dressinu, alltaf að borða.“

Hilmar segir að það hafi verið ruglandi að dvelja í hlutverki sínu á þessari einu kvöldstund svona lengi. „Maður var kannski með eina senu bara í heilan dag af því að það þarf að skjóta þetta frá svo mörgum vinklum, við erum svo mörg í senunni. Ég man eftir því að hafa verið að leika sömu senuna allan daginn og svo í lok dags var maður orðinn svo ringlaður að ég var farinn að gleyma texta sem ég var búinn að fara með allan daginn.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR