spot_img

Sigurjón Kjartansson: Sá að bransinn var orðinn dálítið mettaður af týpum sem nenntu ekki skrifa handrit

Sigurjón Kjartansson er í viðtali við Mannlega þáttinn á Rás 1 um ferilinn og handritaskrif, en hann vinnur nú að gerð Áramótaskaupsins sem framleiðandi.

Úr viðtalinu:

Sigurjón segist hafa uppgötvað ástríðu sína fyrir handritasmíðum þegar hann var í sjónvarpinu með Jóni árið 1995 og síðar þegar Fóstbræður fóru af stað. „Þá er ég að finna það að það sem mér finnst skemmtilegast við allt þetta er að skrifa efnið og horfa á það,“ segir hann. „Allt þar á milli er bölvað helvítis vesen.“

Sigurjón komst að því að honum þótti skemmtilegra að vinna efnið heldur en að leika. „Þá fór ég að sjá líka að í þessum bransa, kvikmyndabransinn á Íslandi er frekar ungur og hann var orðinn dálítið mettaður af týpum sem nenntu ekki skrifa handrit,“ segir Sigurjón. Hann hafi tekið eftir að þeir sem voru í kvikmyndagerð höfðu meiri áhuga á spennandi græjum sem hægt væri að meðhöndla og vildu demba sér í tökur án þess að eyða miklum tíma í skrif.

Hann segist upphaflega hafa farið út í handritagerð af svipuðum ástæðum og fyrir því að hann gerðist gítarleikari HAM. „Af því að enginn annar kunni á gítar og ég var þokkalega slagfær. Og einhver varð að spila á gítar,“ segir hann. „Ég vildi alveg jafn mikið og hinir fara af stað í tökur en einhver varð að skrifa þetta þannig ég fór í það, ég lenti pínulítið í þessu.“

Glæpaþættir eins og sketsar sem þurfa ekki að vera fyndnir
Eftir að hafa skrifað fyrir þætti á borð við Fóstbræður, Svínasúpuna og Stelpurnar hafði hann skrifað í kringum þúsund sketsa fyrir sjónvarp. „Þó ég skrifi ekki einn skets í viðbót þá get ég dáið sáttur,“ hafði hann hugsað í kringum árið 2005. „Þá hugsaði ég með mér að það væri kominn tími á eitthvað aðeins lengra, lengri narratívu sem væri gaman að fara að skrifa.“ Þá kom á daginn að Stöð 2 var að leitast eftir því að búa til glæpaþáttaseríu til að framleiða og sýna. Sigurjón og Óskar Jónasson skrifuðu þá saman þætti og úr varð þáttaröðin Pressa.

Síðan þá hefur Sigurjón haldið sig meira og minna í glæpaþáttum og drama. „Því það er svo gott að koma úr gríngrunni í rauninni,“ segir hann. „Ég lærði rosa mikið á gríninu en þetta er einhvern veginn pínulítið eins og að skrifa sketsa sem eru ekkert fyndnir, þurfa þess ekki. Þeir þurfa bara að ganga upp.“

„Mitt hlutverk að vera maðurinn sem gat svarað öllum spurningum“
Eitt af stóru verkefnunum sem Sigurjón hefur tekið að sér var að vera aðalhöfundur og svokallaður raðráður (e. showrunner) Ófærðar, einnar stærstu íslensku sjónvarpsseríunnar. „Ég er náttúrulega ekki yfir-aðal í Ófærð, það er Baltasar Kormákur sem er leikstjóri og átti hugmyndina að Ófærð en ég tók að mér að stjórna þessu ferli við hlið hans. Vera þarna alla daga og nætur yfir tökum og svo framvegis,“ segir hann. Hlutverk hans hafi verið mikilvægt vegna þess að þegar svo stór hópur fólks komi saman að einu verkefni þurfi að vera einhver miðlægur gagnagrunnur í formi einhvers á staðnum. „Það var mitt hlutverk, að vera maðurinn sem gat svarað öllum spurningum sem komu upp,“ segir hann.

„Það var gríðarlega skemmtilegt og kreatívt,“ segir Sigurjón. „Ég var mikið í kraftgalla sem er keyptur 1999 þegar ég leikstýrði seríu af Fóstbræðrum.“

Margt er í pípunum hjá Sigurjóni og er hann að undirbúa gerð bíómyndar sem hann skrifar og leikstýrir, sem hann hefur ekki gert mikið af. „Þetta er alveg kolsvört gamanmynd,“ segir Sigurjón en gefur ekki meira upp um verkefnið að svo stöddu. „Ég er líka að þróa seríu og það er voða margt að gerast hjá kallinum,“ segir hann.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR