spot_img

Kvikmyndamiðstöð blæs til ráðstefnu um þróun barnaefnis og kvikmyndalæsis

Kvikmyndamiðstöð Íslands blæs til ráðstefnu dagana 27.-28. október þar sem margrómaðir fræðimenn, framleiðendur og þróunarstjórar beggja vegna Atlantsála veita leiðsögn og innsýn í þróun og framleiðslu barnaefnis.

Jafnframt verða flutt erindi og haldnar vinnusmiðjur um gerð náms- og stuðningsefnis fyrir kennara á öllum skólastigum.

Áskoranir og tækifæri

Fyrirlesarar, bæði erlendir og innlendir, hafa mikla reynslu af kvikmyndagerð fyrir börn og margt má læra af þeim um stefnumörkun og framkvæmd. Þar á meðal verða íslenskir kvikmyndagerðarmenn sem hafa lagt barnaefni fyrir sig eða eru leiðandi höfundar á sviði barnabókmennta.

Meðal erinda má nefna „Þekktu þína áhorfendur“, þar sem Knut Næsheim frá NRK Super segir frá reynslu sinni af markhóparannsóknum við þróun barnaefnis, og „Listin að sleppa takinu“, þar sem handritshöfundar, leikstjórar og framleiðendur ræða um helstu áskoranir sem standa þarf frammi fyrir þegar þekkt bókmenntaverk eru færð í kvikmyndabúning.

Kvikmyndamiðstöð Íslands stendur fyrir ráðstefnu um þróun barnaefnis og kvikmyndalæsis undir heitinu Þrjúbíó á nýjum tímum 27.-28. október. Fjölmargir fyrirlesarar erlendir og innlendir taka þátt. 

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis, en nauðsynlegt að skrá sig. Smelltu hér til að skrá þig.

Dagskráin er sem hér segir:

FIMMTUDAGURINN  27. OKTÓBER Á NAUTHÓL

9:00      Opnunarávarp (10‘)

9:15     Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands býður gesti velkomna. (10‘)

9:30     Inngangsfyrirlestur: Eva Novrup Redvall, lektor við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Að ná til ungra áhorfenda: Á hvað horfa börn og unglingar? Og hvernig fáum við þau til að horfa á norrænt efni?! Eva Novrup Redwall (40‘)

Fjölmiðlanotkun barna og unglinga breytist hratt í fjölmiðlalandslagi samtímans sem gerir handritshöfundum og framleiðendum norrænna kvikmynda og sjónvarpsefnis æ erfiðara um vik að finna bestu leiðirnar til að höfða til þessa tiltekna og mikilvæga áhorfendahóps. Erindi Evu Novrup Redwall byggist á nýlegum skýrslum og niðurstöðum rannsóknarverkefnisins „Reaching Young Audiences: Serial fiction and cross-media storyworlds for children and young audiences“ sem unnið er við Háskólann í Kaupmannahöfn. Fjallað verður um nokkrar helstu áskoranir á þessu sviði og kynntir þeir starfshættir sem taldir eru vænlegastir til að skapa efni sem höfðar til ungra kvikmynda- og sjónvarpsáhorfenda.

Eva Novrup Redvall er lektor og yfirmaður deildar kvikmyndafræði og skapandi miðla við Háskólann í Kaupmannahöfn. Auk þess að sinna rannsóknum á handritsskrifum og framleiðslu er hún í stjórn dönsku kvikmyndastofnunarinnar (DFI) og kvikmyndagagnrýnandi á dagblaðinu Information.

10:15   „Þetta litla ljós mitt hér“: Að sigrast á óttanum og skapa frumsamda barnaþætti. Josh Selig (20‘+5‘ Q&A)

Okkur hættir öllum til að líta í kringum okkur eftir svörum sem búa innra með okkur. Þetta á ekki síst við þegar við erum að skapa frumsamið efni. Í stað þess að spyrja „Hvers konar efni eru kaupendurnir að sækjast eftir?“ ættum við að spyrja „Hvers konar efni er mér ætlað að búa til?“ Kaupendur og markaðir koma og fara en skapandi sýn hvers og eins okkar er einstök og tímalaus. Við verðum öll að hafa hugrekki til að deila henni með heiminum. Þú hefur beðið nógu lengi. Nú er komið að þér að búa til þitt eigið efni.

Josh Selig er handritshöfundur og framleiðandi fjölmargra vinsælla þáttaraða fyrir börn á leikskólaaldri, þar á meðal The Wonder Pets (Undradýrin), sem sýnd eru á Nick Jr. 3rd and Bird (Þriðji og fugl) sem sýndir eru á BBC og CCTV og Small Potatoes (Smælki) sem sýndir eru á Disney Junior og á RÚV. Josh er handhafi 12 Emmy-verðlauna fyrir handrit sín og tónsmíðar og er fastur penni hjá The New York Times, Kidscreen Magazine, Animation Magazine, C21 og China Daily. Um þessar mundir er Josh að þróa þáttaröð fyrir 6-9 ára börn í samvinnu við Toonz Media Group sem nefnist Peaches & Creaminal.

10:45   Kaffihlé (15´)

11:00   Mynd- og miðlalæsi fyrir yngsta aldurshópinn frá sjónarhorni dönsku kvikmyndastofnunarinnar DFI. Lisbeth Arto Juhl Sibbesen (25‘+5‘Q&A)

Danska kvikmyndastofnunin (DFI) hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að liðsinna skólum og leikskólum að nálgast hágæða kvikmyndir og skapandi kennsluefni. Barna- og unglingadeild stofnunarinnar stendur að fjölmörgum viðburðum á sviði kvikmyndalæsis. Nefna má app og kvikmyndaforrit fyrir leikskóla, og streymisveitu og kvikmyndanámskeið fyrir skóla. Lisbeth kynnir stefnu stofnunarinnar um málefni barna – að skynja, skilja og skapa kvikmyndir.

Lisbeth Arto Juhl Sibbesen er ritstjóri kennsluefnis hjá dönsku kvikmyndastofnuninni. Meginstarfssvið hennar er að votta menntun á sviði kvikmynda- og fjölmiðlalæsis í leikskólum og skólum og að auka þekkingu á kvikmyndum sem listgrein. Lisbeth hefur einnig þróað og staðið fyrir námskeiðum í kvikmyndalæsi um alla Danmörku í mörg ár og birt greinar um kvikmyndalæsi og kvikmyndagreiningu. Lisbeth er með meistarapróf í frönsku og kvikmynda- og fjölmiðlafræði.

11:30   FILM-X: Kvikmyndaframleiðsla með skólabörnum gegnum leik. Kari Eggert Rysgaard (25‘+5‘Q&A)

Í verkefninu FILM-X býður danska kvikmyndastofnunin (DFI) skólum inn í alvöru upptökuver þar sem börnin búa til kvikmyndir á skapandi og skemmtilegan hátt. Samstarf í kvikmyndateymi er lykilatriði og leiðbeinendurnir leiða börnin gegnum ferlið þar sem hugmyndir þeirra verða að veruleika.

Upptökuverið er þannig úr garði gert að jafnvel yngstu börnin geta búið til atriði í kvikmynd og einbeitt sér um leið að frásögn, persónusköpun og leik. Við gerð kvikmyndar læra börnin að nota og skilja grunnatriði myndmáls þegar þau ákveða myndramma, hljóð, klippingu og fleira.

Kari Eggert Rysgaard stýrir námskeiðum hjá  FILM-X studios/DFI. Hún þróar vinnustofur í kvikmyndagerð fyrir skóla og leikskóla með áherslu á að styrkja hæfni barna í að tjá sig meðvitað og skapandi í samvinnu við aðra gegnum myndskeið.

12:00   Börn og netmiðlar: Ný rannsókn Fjölmiðlanefndar á miðlanotkun 9-14 ára barna. Skúli Bragi Geirdal (20‘)

Á hvernig efni horfa börn og ungmenni á samfélagsmiðlum, hver er upplifun þeirra af stafrænum heimi og hverjar eru helstu áskoranirnar í miðlalæsi fyrir þennan aldurshóp? Skúli Bragi Geirdal fjölmiðlafræðingur og verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd rýnir í niðurstöður nýrrar rannsóknar á miðlanotkun barna og ungmenna á Íslandi á aldrinum 9-14 ára. Niðurstöðurnar verða bornar saman við sambærilega norska rannsókn og reynt að draga af þeim ályktanir og vísbendingar.

Skúli Bragi Geirdal er fjölmiðlafræðingur og verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd jafnframt því að kenna við fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri. Skúli starfaði áður við ritstjórn og hönnun á fjölmiðlinum N4 og kom þar að gerð um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í stefnumótun á miðlinum.

12:20    Hádegisverður (40‘)

13:00    Með augum barnsins. Dálæti mitt á barnamyndum. Christian Lo (10‘)

Christian Lo er heiðursgestur Alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík 2022. Yfirlýst markmið Christians er að gera skemmtilegar, krefjandi, dramatískar og persónudrifnar kvikmyndir þar myndavélin er stillt í augnhæð barnanna og mun hann fjalla um það í fyrirlestri sínum auk þess að segja frá hvers vegna hann hefur valið að gera kvikmyndagerð fyrir börn og fjölskyldur þeirra að ævistarfi sínu.

Christian Lo er norskur kvikmyndagerðarmaður sem hefur helgað sig gerð kvikmynda fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Nýjasta mynd hans Lill-Zlatan och morbror raring sem hlotið hefur frábærar viðtökur er sýnd á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 2022 sem stendur frá 29. október til 6. nóvember.

13:10   Þekktu þína áhorfendur. Knut Næsheim frá NRK Super segir frá reynslu sinni af því að nota markhóparannsóknir við þróun hugmynda á barnaefni. (35‘+5‘ Q&A)

Hjá NRK Super er hefð fyrir því að þróa hugmyndir sem byggjast á markhóparannsóknum. Rannsóknir geta veitt innblástur fyrir sköpun en einnig veitt sýn í efnistök sem höfða betur til áhorfenda. Þáttaraðirnar Minibarna og Min venn Marlon verða teknar sem dæmi til að sýna hvernig hugmyndir eru þróaðar fyrir mismunandi aldurshópa. Farið verður í saumana á því hvernig vandamál voru rökrædd í ferlinu og hvernig var staðið að ákvörðunum. Markmið fyrirlestrar Knuts er að láta höfundum í té verkfæri og ráð til að efni þeirra höfði betur til markhópsins.

Knut Næsheim hefur þróað, samið og stjórnað sjónvarpsefni, mestmegnis fyrir unga áhorfendur, í meira en fimmtán ár. Meðal verka hans eru leiknar þáttaraðir eins og: Sommeren med pappa og Min venn Marlon og leiknu netþáttaraðirnar Blank og  MIA. En einnig sjónvarpsþættir án handrits eins og Best i mest (Best í flestu) sem hlaut Alþjóðleg Emmy-verðlaun og Sangfoni verðlauni. Nýverið þróaði hann og leikstýrði Minibarna sem er fyrsta þáttaröð NRK Super fyrir ársgömul börn og hlaut verðlaunin PRIX Jeunesse 2020 og verður sýnd á RÚV á næstu misserum.

13:55    Kynning á Barn14 – RÚV Skarphéðinn Guðmundsson.  (10‘)

Barn14 er samframleiðsluverkefni norrænu sjónvarpstöðvanna um leikið efni fyrir börn. Samstarfið hefur verið gjöfult og gefið af sér þáttaraðir eins og Minibarna frá NRK Super, Stopp! frá SVT og Akavet frá DR. Nú hefur RÚV slegist í hópinn svo Barn14 verður Barn15.

14.05   Kvikmyndir fyrir börn byggðar á bókum. Listin að sleppa takinu. Christian Lo, Margrét Örnólfsdóttir,Ottó Geir Borg. Umsjón Ása Helga Hjörleifsdóttir.(40‘)

Hvað ber að forðast þegar handrit er skrifað eftir bók og hvernig á að sleppa takinu á höfundaverkinu? Hver er áskorunin að færa þekkt verk í kvikmynda/sjónvarps búning?

Christian Lo er norskur kvikmyndagerðarmaður sem hefur helgað sig gerð kvikmynda fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Tvær af myndum hans eru unnar upp úr skáldverkum. Mynd hans Los Bando sem tilnefnd var til EFA verðlauna ungra áhorfenda var sigursælasta kvikmynd norðmanna á hátíðum árið 2018.

Margrét Örnólfsdóttir er leikstjóri, handrits- og barnabókahöfundur. Margrét hefur hlotið Fjöruverðlaunin og Vorvindaviðurkenningu IBBÝ á Íslandi fyrir bækur sínar auk þess að vera tilnefnd til Vestnorrænu barnabókaverðlaunanna fyrir bók sína: Með heiminn í vasanum.

Ottó Geir Borg starfar sem ráðgjafi á Kvikmyndamiðstöð en hefur einnig skrifað handrit eftir fjölmörgum bókum, þar á meðal Svar við bréfi Helgu, Víti í Vestmannaeyjum, Ég man þig og Gauragangi.

Ása Helga Hjörleifsdóttir er handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri en útskriftarmynd hennar Ástarsaga komst í sjö mynda lokaúrtak fyrir Óskarsverðlaunin 2013 í flokki útskriftarmynda frá Columbia háskólanum í New York. Nýjasta kvikmynd Ásu, Svar við bréfi Helgu var frumsýnd í september 2022. Fyrir utan kvikmyndaverk sín hefur Ása unnið með Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni, og leikstýrði nú síðast verki hans Santa Barbara í Moskvu.

14:50   Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn. Liselott Forsman forstjóri sjóðsins (10‘)

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn, Nordisk Film & TV Fund fjármagnar kvikmyndir, þáttaraðir, heimildarmyndir og nýbreytni í faginu. Verkefni ætluð börnum og ungmennum fá sérstaka athygli. Hvernig lítur iðnaðurinn út í dag frá sjónarhóli fjármögnunaraðila og hvers vegna heitir þemaár sjóðsins 2022  20-eitthvað? Sjóðurinn styrkir einnig dreifingar milli Norðurlanda og talsetningu barnaefnis yfir á norræn tungumál og sérstaklega oft á íslensku. Þetta fjármögnunarform er nú að breytast. Hvers vegna og hvernig?

Liselott Forsman er forstjóri Nordisk Film & TV Fund. Hún hefur framleitt leikið efni fyrir alla aldurshópa sem og heimildarmyndir og menningarþætti og skrifað fjölda handrita, leikrit og handrit að barnaóperu. Sem yfirmaður alþjóðlegs leikins efnis hjá  YLE og formaður skáldverkahóps EBU lagði hún áherslu á alþjóðlegt samstarf. Þegar hún var yfirmaður fagurbókmennta hjá sænska YLE, stýrði hún dagskrárgerð leikins efnis fyrir börn og unglinga. MA gráða hennar samanstendur af námi í kvikmyndum og sjónvarpi.

15:00    Kaffihlé (20‘)

15.20   Norræn rödd, er hún til og ef svo er hvernig hljómar hún? Birkir Ágústsson (Síminn), Margrét Jónasdóttir (RÚV), , Sigvaldi Kárason leikstjóri, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona og handritshöfundur, Hilmar Sigurðsson (Gunhil) Umsjón Helga Brekkan (40‘)

Frumsamið íslenskt barnaefni verður áberandi á dagskrá íslensku sjónvarpstöðvanna í ár. Bæði RÚV og Síminn frumsýna ný jóladagatöl, Jóladagatalið og Jóladagatal Hurðarskellis og Skjóðu auk þess sem norrænu ríkissjónvarpstöðvarnar vinna nú að gerð jólaþáttar sem byggir á norrænum sagnaarfi sem sýna á á öllum Norðurlöndunum þessi jól. Framlag íslands heitir Jólaskórinn. En hvernig ferðast barnaefni milli landa, hvað eigum við sameiginlegt? Er hægt að tala um norrænan sagnaarf? Aðstandendur þáttanna og sjónvarpstöðvar ræða um sköpunarferlið og varpa fram spurningunni hvernig norrænt barnaefni ferðast alþjóðlega.

16:00   Sex bækur sem myndu sóma sér vel á hvíta tjaldinu. Kynning á bókum fyrir börn og ungmenni sem færa má í kvikmyndabúning. Í samvinnu við IBBY og Félag fagfólks á skólabókasöfnum. (40‘)

Árlega koma út hér á landi 70-80 bækur bæði frumsamdar og þýddar fyrir börn og ungmenni.  Fulltrúar frá útgáfufyrirtækjunum, Angústúru, Bókabeitunni,Forlagið og Út fyrir kassann í samvinnu við Félag fagfólks á skólasöfnum hafa valið eftirtaldar bækur sem kjörnar eru að aðlaga að kvikmyndaforminu.

Akam ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur – Angústúra

Drengurinn með ljáinn eftir Ævar Þór Benediktsson – Forlagið

Eldurinn eftir Hjalta Halldórsson – Bókabeitan

Hringavitleysa eftir Sigurrós Jónu Oddsdóttur – Bókabeitan

Orri óstöðvandi – Bókin hennar Möggu Messi eftir Bjarna Fritzsson – Út fyrir kassann

Sterk eftir Margéti Tryggvadóttur – Forlagið

16:45 Samantekt.

17:00 Dagskrárlok.    

                                                                                                   

FÖSTUDAGURINN 28. OKTÓBER – VINNUSTOFUR Í BÍÓ PARADÍS

9:00-11:00 Vinnustofa með dönsku Kvikmyndamiðstöðinni. Lisbeth Juhl Sibbesen & Kari Eggert Rysgaard

Í þessari vinnustofu verður fjallað um hvernig má nota kvikmyndir og fjölmiðla í leikskólum. Skoðað verður hvað telst vera gott og grípandi efni fyrir ung börn og kynntar kennsluaðferðir og leiðir til að veita börnum innblástur, ýta undir samræður og tjáningu út frá mismunandi þemum, t.d með litum og hljóðum. Markmið vinnustofunnar er að sýna mismunandi kennsluaðferðir sem hægt er að nota til þess að börn fái þjálfun í að nota stafræna tækni á skapandi máta í gegnum leik og geti í framhaldi sagt sínar eigin stafrænu sögur.

Lisbeth Juhl Sibbesen frá dönsku kvikmyndastofnuninni leiðbeinir leikskólakennurum  hvernig kenna má aldurshópnum 3-6 ára kvikmyndalæsi eftir forskrift stofnunarinnar, „að skynja, skapa og skilja“.

Kari Eggert Rysgaard kennir kvikmyndagerð í FilmX sem er kvikmyndasmiðja sem starfrækt er í fyrir nemendur innan dönsku kvikmyndastofnunarinnar. Kari fjallar um verklega þáttinn í kvikmyndakennslu fyrir börn og ungmenni og þátttakendur fá að spreyta sig.

11:00-12:30 Eru kvikmyndir listgrein eða tungumál – Vinnustofa fyrir grunnskólakennara. Hallur Örn Árnason

Í vinnustofunni mun Hallur kynna nýtt námsefni í kvikmyndalæsi í gegnum kvikmyndagerð sem hann þróaði fyrir nemendur á miðstigi. Námsefnið er i formi 15 sjálfstæðra  kennslustunda þar sem að nemendur dýpka skilning sinn á kvikmyndaforminu með því að gera verklegar æfingar í kvikmyndagerð. Þátttakendur á vinnustofunni fá svo tækifæri til þess að spreyta sig á einni æfingu í námsefninu.

Hallur Örn Árnason starfar sem sjálfstæður kvikmyndagerðarmaður og sem kvikmyndagerðarkennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Hann er einn stofnanda alþjóðlegu heimildamyndahátíðarinnar IceDocs (Iceland Documentary Film Festival).

14:00   Að búa til vandaðar þáttahandbækur (series bible) fyrir barnaþáttaraðir. Vinnustofa fyrir handritshöfunda og framleiðendur Josh Selig

Góð þáttahandbók fangar kjarna barnaþáttaraðarinnar á skemmtilegan og hvetjandi máta. Með því að tvinna saman góð skrif og fallega hönnun sýnir þáttahandbókin fram á af hverju þáttaröðin þín á að fara í framleiðslu. Í tveggja klukkustunda vinnustofu verður farið yfir grundvallarreglur þess að skrifa áhrifaríka þáttahandbók. Rædd verða nokkur dæmi um vel heppnaðar þáttahandbækur og þátttakendum boðið að segja frá þeim verkefnum og þáttahandbókum sem þeir eru með í smíðum og taka þátt í umræðum.

Josh Selig er handritshöfundur og framleiðandi fjölmargra vinsælla þáttaraða fyrir börn á leikskólaaldri svo sem eins og Undradýrin (Wonderpets) og Smælki (Small Potatoes). Josh hefur unnið til 12 Emmy verðlauna fyrir handrit sín og tónsmíðar og vinnur nú að þróun þáttaraðar fyrir börn á aldrinum 6-9 ára sem nefnist Peaches and Creminal.

16:00    Dagskrárlok

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR